Tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna voru kynntar á dögunum og voru þar margar fínar bækur á lista. Ég ætla hins vegar ekki að ræða þær, því það sem vakti athygli mína er að á meðal þeirra fimm bóka sem hlutu tilnefningu í flokki fagurbókmennta var ekki ein einasta ljóðabók. Þetta eru nefnilega allt skáldsögur. Það hefur lengi legið fyrir að skáldsögur eru í aðalhlutverki hvað Íslensku bókmenntaverðlaunin varðar, og raunar bara almennt í bókmenntaheiminum ef út í það er farið, og þegar litið er yfir 32 ára sögu verðlaunanna sést það svart á hvítu. Verðlaunin hafa aðeins farið til ljóðabóka í fimm skipti af þeim 32 sem þau hafa verið veitt. 22 sinnum hafa verðlaunin farið til skáldsagna og í hin fimm skiptin var um að ræða endurminningar, barnabók (áður en þær urðu sér flokkur) og smásagnasöfn. Ljóðabækur hafa oft verið tilnefndar en af einhverjum ástæðum virðast þær eiga mun erfiðara uppdráttar heldur en skáldsögurnar. Til að mynda eru heil ellefu ár síðan ljóðabók hlaut verðlaunin síðast þegar Blóðhófnir eftir Gerði Kristnýju fékk þau árið 2010 en þar áður var það ljóðabókin Hvar sem ég verð eftir Ingibjörgu Haraldsdóttur 2002. Síðan þá hafa margar góðar ljóðabækur verið tilnefndar en aldrei hafa þær hreppt hnossið.

Kominn tími fyrir nýjan flokk

Eflaust myndu einhverjir vilja útskýra þetta með því að umræddar ljóðabækur hafi bara einfaldlega ekki verið nógu góðar miðað við skáldsögurnar. En allir sem vita eitthvað um bókmenntir hljóta að sjá að þetta getur ekki staðist. Ljóð eru einfaldlega allt annað bókmenntaform heldur en prósi og skáldsögur. Skiptingin í ljóð og prósa er raunar jafngömul sjálfri bókmenntasögunni. Ljóðið sjálft er þó mun eldra enda vorum við Íslendingar orðnir atvinnumenn í ljóðagerð á heimsmælikvarða mörgum öldum áður en skáldsagan var svo mikið sem fræ í hugum Evrópumanna. Að ætla sér að dæma ljóð og skáldsögur út frá sömu viðmiðum sýnist mér álíka vitlaust og að setja fótbolta og handbolta í sama flokk. Vissulega er lokatakmarkið það sama í báðum íþróttagreinum; að koma boltanum í netið, en aðferðirnar sem eru notaðar og leiðin sem leikmennirnir fara í átt að takmarkinu eru gjörólíkar.

Því spyr ég, er ekki kominn tími til að búa til sér flokk fyrir ljóð innan Íslensku bókmenntaverðlaunanna? Árið 2013 var í fyrsta sinn búinn til sér flokkur fyrir barna- og ungmennabækur en fram að því hafði aðeins ein barnabók unnið verðlaunin, Sagan af bláa hnettinum eftir Andra Snæ Magnason árið 1999. Var sem sagt bara ein íslensk barnabók nógu góð til að hljóta Íslensku bókmenntaverðlaunin á 23 ára tímabilinu frá 1989-2012? Auðvitað ekki, barnabókmenntir voru hins vegar augljóslega ekki metnar á réttum forsendum og þess vegna þurfti að búa til sér flokk fyrir þær. Af hverju ekki að gera það sama fyrir ljóðlistina?

Myndi Jónas eiga séns í dag?

Einhverjir gætu haft áhyggjur af því að þetta myndi opna dyrnar fyrir enn meiri flokkadrætti og að þá þyrfti einnig að bæta við sér verðlaunaflokki fyrir smásögur, ævisögur eða margt fleira. En hví ekki að taka umræðuna? Menning endurspeglar ávallt tímann sem hún sprettur upp úr og því eðlilegt að endurskoða þurfi menningarstofnanir á borð við Íslensku bókmenntaverðlaunin endrum og eins. Í því samhengi má til dæmis benda á að Íslensku tónlistarverðlaunin eru veitt í 37 mismunandi flokkum og þótt kannski séu ekki forsendur fyrir því að verðlauna bókmenntir á jafn breiðu sviði þá er gott að hafa það til hliðsjónar að verðlaun geta verið alls konar.

Margir af merkilegustu höfundunum sem Ísland hefur alið af sér eru ljóðskáld og sumir þeirra skrifuðu aldrei skáldsögur. Myndi Jónas Hallgrímsson til dæmis eiga séns í Íslensku bókmenntaverðlaunin væri hann uppi í dag eða myndi hann lúta í lægra haldi fyrir skáldsagnahöfundi, með fullri virðingu fyrir þeim? Í viðtali sem ég tók við Jón Kalman Stefánsson í Fréttablaðinu nýlega lýsti hann ljóðlistinni sem hinu dýpsta og elsta í mannsandanum og sagði að „ef eitthvað kemst á milli lífs og dauða“ þá væru það ljóðin. Það hlýtur því að skjóta nokkuð skökku við að elsta bókmenntaformið komist ekki upp á verðlaunapall Íslensku bókmenntaverðlaunanna nema einu sinni á áratug.