Eftir að Evrópa hafði í tveimur Evrópu- og heims­styrj­öldum, fyrst 1914-1918 og svo 1939-1945, nánast tor­tímt sjálfri sér og þegnum sínum, sáu vald­hafar upp úr 1950, fyrst einkum í Þýzka­landi og Frakk­landi, sem reyndar höfðu farið fyrir á­tökunum og stríðs­rekstrinum, að slíkur ó­friður, slík eyði­legging og slíkar heima­til­búnar hörmungar mættu aldrei ganga yfir álfuna og þjóðir hennar aftur.

Í fram­haldi af því var grunnurinn að nýrri Evrópu – Evrópu skilnings, vin­áttu, sam­vinnu, sam­stöðu og friðar, ekki á­greinings og á­taka – lagður í formi þess, sem varð Evrópu­sam­bandið, ESB.

Tvö stór­menni þessa tíma, Þjóð­verjinn Kon­rad Adenauer og Frakkinn Charles de Gaul­le, komu framan af sterk­lega inn í mótun þessa nýja ríkja­sam­bands og má telja þá til feðra ESB.

Í lýð­ræðis­ríkjum hafði það sjónar­mið lengi gilt, og gildir það víða eða víðast enn, í sam­skiptum manna og ríkja, að meiri­hlutinn skyldi ráða.

Feður ESB skildu, að slíkt kerfi mætti ekki og gæti ekki gilt, ef ná ætti þjóð­ríkjum Evrópu saman, stórum sem smáum, í eina sam­stæða heild; í eina fjöl­skyldu.

Ef meiri­hluti ætti að ráða, hvort sem farið væri eftir fólks­fjölda ríkja eða stærð og valdi ríkja á sviði efna­hags­mála og fram­laga, myndi alltaf verða til minni­hluti, sem sætti þá yfir­valdi meiri­hlutans og yrði að una val­kostum, sem hentaði ekki eða hann gæti illa sætt sig við.

„Feðurnir“ skildu, að slíkt kerfi, um meiri­hluta og minni­hluta, myndi kljúfa fylkingu þjóð­ríkjanna, ekki sam­eina hana og sam­stilla.

Þess vegna var farið í það valda­kerfi með sam­bandið, að öll stefnu­mörkun, öll stærri mál og allir stærri samningar, innan ESB og gagn­vart utan­að­komandi aðilum og ríkjum, yrðu að vera sam­þykktir af öllum ríkjunum í sam­bandinu, til að öðlast gildi.

Þetta er ein­stakt í mann­kyns­sögunni og í raun hæsta stig trúnaðar milli þjóða, jafn­réttis og lýð­ræðis, sem hægt er að hugsa sér.

Framan af sætti þetta fyrir­komu­lag mikilli gagn­rýni, menn töldu að þetta hæsta stig lýð­ræðis gæti aldrei virkað í reynd, að sam­bandið yrði ó­starf­hæft, þar sem að­eins eitt aðildar­ríki, lítið eða stórt, gæti stoppað alla upp­byggingu og fram­þróun.

Það mætti líkja þessu við það, að allir þing­mennirnir hér, 63 að tölu, yrðu að sam­þykkja hvert og eitt laga­frum­varp, án undan­tekninga, til þess að það gæti orðið að lögum. Menn geta væntan­lega séð það fyrir sér, hvernig það myndi ganga.

En, feður ESB gáfu sig ekki, þeir sögðu að þetta væri eina leiðin, og tíminn hefur leitt í ljós, að þeir höfðu rétt fyrir sér.

Í dag eru 27 ríki í ESB. Hvert þeirra, hvort sem þau eru lítil eða stór, hafa einn ráð­herra, í fram­kvæmda­stjórn ESB, og hvert þeirra hefur neitunar­vald. Til þess að eitt­hvert nýtt stefnu­mál, stærri á­kvörðun eða meiri­háttar samningur við önnur ríki nái fram að ganga og taki gildi, verða öll ríkin 27 að sam­þykkja.

Þetta er al­gjör­lega ein­stakt há­stig lýð­ræðis, en það er að virka, reyndar betur og betur. For­sendan er gagn­kvæmur skilningur milli ríkjanna, þar sem menn verða að setja sig vel inn í stöðu annarra, sam­herjanna, og svo mála­miðlanir, meðal­hóf og sann­girni.

Til að taka dæmi, má nefna, að samninga­nefnd ESB var í 7 ár að semja við Kanada um frí­verzlun. Nú þurftu ekki að­eins ríkis­stjórnir sam­bands­ríkjanna heldur líka þjóð­þing þeirra, þá 28 (fyrir Brexit), og svo Evrópu­þingið, að sam­þykkja samninginn til að hann tæki gildi.

En, hvað gerðizt? Þjóð­þing þjóðar­brotsins Vallóna í Belgíu taldi samninginn ekki tryggja sína hags­muni nægjan­lega, og það tók marga mánuði, að endur­semja og breyta samningnum til að fá Vallóna góða, þannig, að við­skipta­samningurinn gæti tekið gildi.

Nefna má annað ný­legt dæmi, þar sem stóru ríkin, Þýzka­land og Frakk­land, vildu veita veru­legum hluta af nýjum CO­VID-björgunar­sjóði ESB til Ítalíu og Spánar, sem verst fóru út úr plágunni, án endur­gjalds; í formi ó­endur­kræfra upp­byggingar­styrkja. Auð­vitað stóðu Ítalir og Spán­verjar með þeim, og þar með allar 4 stærstu þjóðirnar í ESB. En hvað gerðizt?

Smá­ríkin Austur­ríki, Holland, Dan­mörk og Finn­land, sem kölluð voru „ríki ráð­deildar“, settu sig upp á móti þessum miklu ó­endur­kræfu styrkjum og settu sig í gegn með sín sjónar­mið. Ekki á grund­velli fjöl­mennis eða styrks þjóðanna, heldur á grund­velli skyn­semi, meðal­hófs og raka.

Á bak við þetta vald standa svo þing­menn Evrópu­þingsins, á áttunda hundrað þjóð­kjörinna full­trúa allra aðildar­ríkjanna, sem síðan verða að sam­þykkja niður­stöður og gjörðir.

Fram­kvæmda­stjórnin í Brussel, nú 27 ráð­herrar eða kommissarar, hafa ekkert eigið á­kvörðunar­vald, bara vald til að koma með til­lögur og fram­kvæma vilja aðildar­ríkjanna 27 og Evrópu­þingsins.

Hér á Ís­landi vaða nokkrir menn, undar­legt nokk, uppi, bæði á­hrifa­menn (DO) og þeir, sem eru það ekki, en vilja vera það, en verða það senni­lega seint (AÞJ), og full­yrða, að aðild Ís­lands að ESB „væri full­veldis­fram­sal til yfir­þjóð­legs em­bættis­manna-valds og stofnana­veldis í fjar­lægjum borgum“ (AÞJ), og, að ESB sé „mar­traðar­kennt möppu­dýra­veldi“ (DO), „ó­lýð­ræðis­leg valda­sam­þjöppun“ (AÞJ), „vígi verndar­stefnu og pils­falda-kapítal­isma“ (DO), og, að „Stærstu ríkin, sem leggja fram mest fjár­magn, verða ráðandi í öllum megin­at­riðum“ (AÞJ), o.s.frv.

Dæmi nú hver fyrir sig um rétt­mæti þessara gífur­yrtu full­yrðinga, hræðslu­á­róðurs og sleggju­dóma.

Ein­stein notaði stundum orðið „geð­veiki“, þegar honum mis­bauð þekkingar­skortur, skilnings­leysi eða lítið í­grunduð sjálf­um­gleði manna. Kannske hefði hann notað það um þessa af­stöðu og þessar full­yrðingar, ef hann hefði verið með okkur hér og nú.

Höfundur er alþjóðlegur kaupsýslumaður og stjórnmálarýnir.