Aldrei er of oft minnt á mikilvægi þess að trúa á æðri mátt. Með fullyrðingum um styrk trúarinnar er engan veginn verið að gera tilraun til að þvinga trú upp á fólk. Einungis verið að benda á hina miklu vernd sem trúin veitir einstaklingum á lífsgöngu þeirra. Þannig verður mótlæti þolanlegra en ella og auðmýkt gagnvart lífinu verður ríkjandi viðhorf. Það getur ekki talist annað en heillaríkt.

Í nútíma okkar eru margir sem gera lítið úr trúnni. Sumum er meira að segja svo illa við hana að þeir spangóla nánast af reiði í hvert sinn sem þeir heyra því haldið fram að trúin skapi sálarró og geri manneskjur færari en ella til að lifa í sátt við sjálfa sig og aðra. Það er vissulega hægt að lifa án trúar á æðri mátt, en það er samt svo miklu betra að lifa í vissu um hann.

Enn á ný er runninn upp gleðilegasti tími ársins, sjálf jólin ganga í garð. Við lifum að vísu við illskiljanleg takmörk sem gera að verkum að hátíðarhald verður ekki með alveg sama brag og venjulega. Það skiptir samt ekki svo miklu máli meðan við höldum í jólaandann – og það eigum við auðveldlega að geta gert.

Það er fallegur siður að fara í messu og mæta heilagleikanum, en hann er ekki einungis í kirkjunum heldur allt í kring. Það skiptir heldur ekki máli hvernig aðstæður eru í þjóðfélaginu, prestarnir okkar góðu finna sína leið við að koma jólaboðskapnum til okkar. Það skiptir líka miklu máli hvernig þeir miðla þeim boðskap. Þeir eiga ekki að flytja hann eins og þeir séu að lesa upp margtuggna fréttatilkynningu um fæðingu barns úti í heimi. Þeir eiga að gæða boðskapinn lífi og minna á að hann skiptir miklu máli af því hann snýst um óendanlegan kærleik og náð. Um leið er hinn fallegi og heilagi jólaboðskapur áminning til okkar allra um að skrúfa niður í sjálfhverfunni og hlúa að öðrum.

Vissulega er trú einkamál hvers og eins, en hana á samt ekki að þurfa að fela. Kristinn boðskapur á erindi við alla, ekki síst börnin. Þannig á það að vera eðlilegt og sjálfsagt að skólabörn fari í kirkjuheimsóknir og fái fræðslu um kristna trú í stað þess að nánast sé verið að fela hana fyrir þeim, eins og nú er ákveðin hneigð til. Fátt er fallegra og einlægara en barnsleg trú, einlægni og innlifun.Kærleiksrík trú er sannarlega mikil blessun enda kjósa ótal margir að fylgja henni – og mega fyrir vikið teljast gæfusamir.

Gleðileg jól, kæru landsmenn, í Guðs friði!