Það eina sem hefur gengið þokkalega fumlaust fyrir sig hjá stjórnvöldum á síðustu árum er fjölgun pólitískra aðstoðarmanna.

Í þeirri útþenslu hefur ekki þurft að leggjast í neinar greiningar, karpa í þinginu eða skipa starfshópa. Bara opna veskið.

Ráðherrar óskuðu eftir aðstoð vegna álags, og fengu hana. Án málalenginga. Talsvert einfaldari afgreiðsla en maður á að venjast hjá hinu opinbera, verður að segjast.

Pólitískir aðstoðarmenn ríkisstjórnarinnar eru orðnir tuttugu og sjö talsins í dag. Þeir hafa aldrei verið fleiri.

Þessi stórauknu aðstoðarmannaumsvif ríkisstjórnarinnar byggja á tíu ára gamalli lagabreytingu. Þar sem heimildir ráðherra til að ráða sér hjálparhellur voru útvíkkaðar svo um munaði. Síðan þá hefur þunnskipuðum félagsskap pólitískra aðstoðarmanna á Íslandi heldur betur vaxið fiskur um hrygg.

En gallinn við að fjölga stöðugildum er að þá eykst launakostnaður gjarnan í samræmi. Þetta hefðu ráðherrarnir mátt hafa hugfast varðandi aðstoðarmennina.

Frá því ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur tók við fyrir fimm árum hafa laun ráðherra og pólitískra aðstoðarmanna þeirra hækkað um 70 prósent. Hvorki meira né minna. Ráðuneytum hefur fjölgað, aðstoðarmönnum hefur fjölgað og launin gjörsamlega sprungið út.

Allt skilar þetta sér svo beinustu leið til skattgreiðenda. Í formi 320 milljóna kostnaðarauka á hverju einasta ári. Á tímum efnahagsþrenginga. Það er nú öll ráðdeildin og ábyrgðin sem sem okkar valdamesta fólk hefur sýnt.

Hafið þetta endilega í huga næst þegar þið heyrið ráðherra tala um mikilvægi þess að sýna útsjónarsemi í rekstri. Eða þegar þeir hvetja til þess að þegnar landsins gæti hófs í aðdraganda komandi kjarasamninga. Hugsið um þetta næst þegar þeir tjá sig um þenslu eða óhóflegan kostnað. Til dæmis í tengslum við rekstur Landspítalans.

Munið þá eftir fordæminu sem þeir sjálfir hafa sýnt. Með því að þenja út allar sínar útgjaldaheimildir og stórauka kostnað.

Og talandi um opinberan rekstur. Hvað verður eiginlega alltaf um stjórnmálamennina sem fjasa um það fyrir kosningar að þeir ætli að koma böndum á báknið?

Hvað meina þeir eiginlega með flennistórum veggspjöldum í strætóskýlum sem tala um ábyrga fjármálastjórn?

Ráða þeir svo aldrei við verkefnið? Eða er þetta kannski spurning um að þeir fái til liðs við sig fleiri aðstoðarmenn?