Það er ánægjulegt að heyra af aðgerðaáætlun stjórnvalda í málefnum eldra fólks á Íslandi, en hún var tilkynnt með nokkurri viðhöfn á Kjarvalsstöðum á þriðjudag. Þar undirrituðu ráðherrar fjármála, félagsmála og heilbrigðismála yfirlýsingu um heildarendurskoðun á þjónustu við þennan stóra hóp landsmanna.

Stjórnvöld á öllum tímum þurfa gagnrýni og aðhald, en það verður einnig að hrósa þeim þegar það á við. Og það er við hæfi af þessu tilefni þegar blásið er í herlúðra og málaflokkurinn fær þá athygli sem hann á skilið.

Þjónusta við aldraða landsmenn hefur verið í skötulíki á mörgum sviðum og stirt og óþjált kerfi hins opinbera hefur oft og tíðum verið beinlínis mannfjandsamlegt þegar kemur að kjörum þessa fólks sem margt býr við einmanaleika og geðlægð – og getur fyrir vikið ekki notið efri áranna.

Þessi sleifarháttur hefur ekki síst stafað af því að kerfin, sem kunna að vera ágæt út af fyrir sig, tala ekki saman. Málefni eldra fólks er að finna í ekki færri en fjórum ráðuneytum og opinber þjónusta við hópinn er ýmist á hendi ríkisins eða sveitarfélaga.

Þar hefur vandinn legið um langt árabil – og nú loksins á að taka á honum með því að samhæfa þjónustuna við aldraða svo þeir verði ekki strandaglópar á mörkum ríkis og bæja.

Þá á einnig að taka á húsnæðisvanda fólks á þessum aldri, en hann hefur verið ærinn á undanliðnum áratugum og versnað á allra síðustu árum, ekki síst sakir þess að þær úrlausnir sem eru í boði eru ýmist of dýrar eða úr takti við væntingar eldra fólks á nýrri öld.

Allt of margt af því er beinlínis innlyksa í sérbýli sínu, gjarnan of stóru, af því það er aftarlega á biðlistum eftir öðru úrræði. Og ástæðu þess má rekja til þess að enn aðrir búa allt of lengi á hjúkrunarheimilum, sem er ein kostnaðarsamasta heilbrigðisþjónustan, af því að ekki er öðrum dvalarúrræðum til að dreifa. Loks hírist hópur fólks á göngum spítalanna sem hefur í engin önnur hús að venda.

Það er ekki seinna vænna að taka til hendinni í þessum mikilvæga málaflokki. Mannfjöldaspá Hagstofunnar gerir ráð fyrir því að tuttugu prósent þjóðarinnar verði eldri borgarar árið 2039 og tuttugu og fimm prósent hennar verði í þeim hópi árið 2059.