Á undanförnum árum og áratugum hafa Sálfræðingafélag Íslands, Félag sérfræðinga í klínískri sálfræði og Félag sjálfstætt starfandi sálfræðinga bent ítrekað á mikilvægi þess að auðvelda almenningi aðgengi að sálfræðiþjónustu. Niðurgreiða eigi sálfræðiþjónustu á sama hátt og aðra heilbrigðisþjónustu.

Úrskurður Samkeppnisstofnunar

Samkeppnisstofnun hefur tvívegis tekið málið til skoðunar, fellt úrskurð og beint þeim tilmælum til stjórnvalda að samið verði við sérfræðinga í klínískri sálfræði á svipaðan hátt og samið hefur verið við geðlækna og aðra sérfræðinga í læknastétt. Rétt er að geta þess að umræddir samningar eru lausir núna.

Einhverra hluta vegna hafa stjórnvöld ekki farið eftir þessu áliti Samkeppnisstofnunar. Það vekur furðu, þar sem sýnt hefur verið fram á að sérhæfð sálfræðiþjónusta, greining, meðferð og íhlutun dregur á ýmsan hátt úr kostnaði heilbrigðisþjónustu, meðal annars með færri innlögnum á sjúkrahús, færri einstaklingum á örorku, auknu vinnuframlagi, minni lyfjanotkun og betri líkamlegri og andlegri heilsu. Þær krónur sem fara í að greiða niður sálfræðiþjónustu við almenning skila sér aftur til ríkisins og meira en það.

Sálfræðiþjónusta skilar árangri

Aðferðir sálfræðilegrar greiningar og meðferðar eru vel skilgreindar og árangur þeirra hefur verið staðfestur með rannsóknum. Samkvæmt bestu starfsreglum í heilbrigðisþjónustu er sálfræðileg meðferð fyrsta val við íhlutun, til dæmis þegar um er að ræða kvíða, depurð, þunglyndi eða svefnleysi. Gott aðgengi að slíkri þjónustu eru sjálfsögð mannréttindi og samfélagslega mikilvægt.

Samstaða á Alþingi í orði en ekki á borði

Í aðdraganda alþingiskosninga 2016 voru allir stjórnmálaflokkar sammála um að bæta þyrfti aðgengi almennings að sálfræðiþjónustu. Áður höfðu verkalýðsfélög lýst sömu skoðun. Sumarið 2020 var frumvarp um niðurgreiðslu á sálfræðiþjónustu samþykkt einróma á Alþingi. Þrátt fyrir mikla samstöðu var einungis 100 milljónum ráðstafað í verkefnið, sem endurspeglar áhugaleysi stjórnvalda.

Áhersla hagsmunasamtaka

Hagsmunasamtök hafa einnig lagt áherslu á málið á undanförnum árum. Sem dæmi má nefna undirskriftasöfnun árið 2016 á vegum ADHD samtakanna, Barnaheilla, Einhverfusamtakanna, Einstakra Barna, Landssamtakanna Þroskahjálp, Sjónarhóls – ráðgjafarmiðstöðvar, Tourette-samtakanna á Íslandi og Umhyggju – félags langveikra barna, þar sem stjórnvöld voru hvött til að fella sálfræðiþjónustu undir greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga Íslands. Nýlega hafa Geðhjálp og Öryrkjabandalag Íslands lagt mikla áherslu á mikilvægi þess að aðgengi sé tryggt að sálfræðiþjónustu.

Sálfræðiþjónusta opinberra stofnana er mikilvæg en fjarri því að fullnægja þörf fyrir sálfræðiþjónustu. Niðurgreidd sérhæfð sálfræðiþjónusta á stofum sálfræðinga er mikilvæg fyrir almenning, þjóðhagslega hagkvæm og þolir ekki bið.

Höfundar eru sérfræðingar í klínískri sálfræði.