Eftir kirfilega ígrundað val á framhaldsskóla tók umsóknarferlið við hjá syni mínum, með tilheyrandi eftirvæntingu yfir því hvort draumaframhaldsskólinn ákvæði að hýsa hann og mennta.

Að umsóknarfresti loknum vöktuðum við mæðgin tölvupóst okkar beggja og bréfalúguna og spennan óx með degi hverjum. Þegar svo á samfélagsmiðlum tóku að birtast gleðifréttir um inngöngu ungmenna í þessa eða hina menntastofnunina fóru að renna tvær grímur á þessa móður, enda hafði ekkert tilboð um skólavist borist syninum.

Eftir nokkurra daga óvissu var ráðgátan þó leyst. Skólinn hafði sent sambýlismanni mínum svarið – og það ratað í ruslhólf póstforrits hans. Sambýlismaður minn er þó ekki faðir unglingsins.

Faðir hans, sem deilir með mér forræði, fékk engan póst. Fyrirmæli fylgdu um að skólavist yrði staðfest með greiðslu skólagjalda og því væri mikilvægt að draga ekki greiðslu. Þegar mér barst sms um að greiðsluseðill væri kominn í heimabankann endurhlóð ég bankann ansi oft þar til ég fattaði að sambýlismaðurinn hefði að sjálfsögðu fengið rukkunina.

Sextán ára unglingurinn minn er sem sagt, að því er virðist, orðinn hans. Það er eitthvað sem okkur yfirsást í smáa letrinu þegar við skráðum okkur í sambúð fyrir fjórum árum síðan. Fyrsta hugsun mín og fleiri sem af heyrðu, var að kyn réði einhverju í þessum efnum og karlinn á bænum fengi þannig vitneskjuna og reikningana. Hugmyndin er sem betur fer ekki alveg svo afdönkuð – hann er bara elstur á bænum.

En værum við þó stödd um tveimur áratugum aftar á dagatalinu hefði það þó verið rétt ályktað því til ársins 1997 var það karlinn á bænum sem var aðalfjölskyldunúmerið: Heimilisfólk var skráð undir hans kennitölu.

Við erum nú á einu lögheimilistengslanúmeri, áður fjölskyldunúmeri. Ný lög um skráningu einstaklinga tóku gildi árið 2020 og þar með var hugtakinu fjölskyldunúmer breytt í lögheimilistengsl sem er skilgreint sem auðkennisnúmer fyrir þá einingu sem tilgreinir sameiginlegt lögheimili.

Nú í vor hóf Þjóðskrá miðlun á forsjá og geta notendur þannig óskað eftir aðgangi að slíkum upplýsingum. En þó nota sumir enn téð lögheimilistengslanúmer til að draga ályktanir um fjölskyldu- og forsjárvensl barna.

Fátt er íslenskara en samsettar og flóknar fjölskyldur, svo það að gera ráð fyrir því að eldri einstaklingur sem býr með forsjáraðila barns taki við hlutverki foreldris er ekki í nokkrum takti við samtímann. Það skref sem var tekið í vor um að Þjóðskrá miðli nú upplýsingum um forsjá er í rétta átt, nú þurfa notendur bara að nýta sér þá þjónustu og uppfæra kerfi sín og þankagang.