Á meðan heimsfaraldurinn var í hámarki var ekki farið í nein ferðalög til útlanda. En þegar rofaði til – tvöföld bólusetning í húsi og smittölur taldar viðunandi – var bókuð ferð til Kaupmannahafnar til fundar við einkadótturina. Þegar sest var upp í flugvél eftir 1½ árs bið var ekki laust við að tilhlökkunin væri flughræðslunni yfirsterkari. Það vann þó einnig gegn óttanum við flugið að ekkert tiltökumál þykir að vera komin með áfengi í glas eldsnemma morguns, svo lengi sem setið er um borð í flugvél.

Við tóku yndislegir dagar í Kaupmannahöfn, en þar sem dóttirin var í vinnu gafst nægur tími til að ganga miðborgina þvers og kruss á eigin forsendum. Þegar höfuðborg Danmerkur var heimsótt hér fyrr á árum var ekki farið mikið út fyrir Strikið. Gatan var gengin upp og niður og sífellt fjölgaði pokunum sem eiginmaðurinn þurfti að bera. Í dag er þó tími innkaupa í útlöndum einungis brot af því sem áður var, en dögunum varið í að gera vel við sig í mat og drykk og skoða áhugaverða hluti.

Þó voru hliðargötur í miðborginni þræddar enda urmull af skrítnum verslunum þar og áhugaverðar antíkbúðir. Síðasta daginn stoppaði ég við lítinn búðarglugga en hélt göngu áfram með hraði enda gat ekki verið komið svona illa fyrir mér! Ég snéri þó fljótlega við og kaupin fóru fram. Á þeirri stundu var ljóst að ég var bæði orðin mamma mín og amma! Á yngri árum var nefnilega eitt það ljótasta sem til var á heimilum þessarar tveggja kvenna – að mínu mati – allt í einu vandlega pakkað ofan í ferðatöskuna mína. Meira miðaldra gerist maður varla – en að eiga forláta postulínsstyttu frá Bing & Gröndahl.