Við verðum að vilja þiggja þá aðstoð sem við eigum rétt á. Það eru ekki auðveld skref fyrir einstaklinga að þurfa aðstoð við allar daglegar athafnir, fólk sem var vant að aðstoða aðra allt sitt líf, en sumir þó allavega sjálfa sig. Þegar aðstoð berst við t.d. böðun og klósettferðir hefst samningatörnin. Ég vil vera strokinn svona en ekki svona. Við verðum að taka ábendingum um það sem betur má fara á jákvæðan hátt og sama gildir um fagmanneskjuna að hlusta á okkur. Lífið er samningar alla daga, oft á dag. Mannleg samskipti er það sem gerir gæfumuninn. Ef ég er dóni, kjaftfor leiðindaskjóða, þá fæ ég það viðhorf til baka og væntanlega lélega eða enga þjónustu, það fæst enginn til verksins. Nálgist fólk hvert annað af gagnkvæmri virðingu verður til hið besta samband sem hægt er í stöðunni.

Útvistun verkefna í þessari viðkvæmu aðstoð er vandasamt verk. Að fela einstaklingnum sjálfum að sjá um aðstoðina: Notendastýrða persónuleg aðstoð (NPA), krefst mikillar færni af notandanum og hentar alls ekki öllum. Annað nafn á þessu eru beingreiðslusamningar, nema þá er NPA-upphæðin án umsýslugjalds og fleira sem dugar tæpast fyrir aðkeyptri aðstoð ef fylgja á landslögum með skattaskil og aðrar opinberar greiðslur. Því er mikilvægt að aðstoðin dugi fyrir þeim kostnaði sem fellur til vegna hennar. Annað endar með ósköpum.

Að einkaaðilar, sem taka einstakling að sér, gangi út frá viðkomandi á deginum þarfnast frekari skýringa og er væntanlega samningsbrot sem kallar á lögsókn.

Borgin er að gera margt ágætt og má eiga það sem hún á, en við getum öll gert betur, berum virðingu hvert fyrir öðru og finnum nýjar leiðir að sameiginlegum markmiðum. Höfum alvöru samráð þeirra sem þjónustu veita og svo notenda þjónustunnar. Ekki venjulegt sýndarmennskusamráð, þar sem notandinn gerir athugasemd við orðinn hlut. n

Guðjón er notandi þjónustu Reykjavíkur og er í stöðugum samningaviðræðum við hana. Alls ekki alltaf ánægður en fær bað þrisvar til fimm sinnum í viku.