Í mannkynssögunni má finna mörg dæmi um skynsamt fólk á villigötum. Heilu þjóðirnar gerðust sekar um ófyrirgefanlegar aðgerðir, sem á sínum tíma virtust í lagi. Aftökur, refsingar og útskúfun einstaklinga og jafnvel heilu þjóðfélagshópanna fóru fram án dóms og laga og réttarríkið var lagt til hliðar.

Í almennri geðshræringu tapaði fólk áttum og erfitt er að skilja hvernig það gat gerst. Flestir tóku þátt og hinir þögðu þunnu hljóði. Reiðin beindist jú ekki að þeim.

Um þessar mundir berjast hópar, sem kenna sig við umburðarlyndi, manngæsku og frið, af heift fyrir því að allir þeir sem bornir eru sökum um óviðeigandi hegðun skuli útskúfaðir. Dólgslæti og alvarleg kynferðisbrot eru sett undir sama hatt og þeir sem liggja undir grun eru saman kallaðir kynferðisbrotamenn.

Hugtakið hefur þannig verið gengisfellt svo raunverulegum fórnarlömbum er lítill greiði gerður.

Óháð alvarleika brotanna skulu sökudólgarnir sviptir æru sinni og lífsviðurværi án þess þó að hafa nokkru sinni hlotið réttláta málsmeðferð eða dóm fyrir meint brot sín. Auðvitað eru þessir menn ekki allir saklausir og eflaust eru margir þeirra sekir.

Þótt lögregla felli niður rannsókn eða dómari sýkni sakborning er ekki þar með sagt að brotaþoli sé að ljúga. Þótt við trúum brotaþolum þá ber okkur engu að síður að virða þá grundvallarreglu að menn verða ekki dæmdir ef full sönnun tekst ekki. Bitur reynsla sögunnar hefur kennt okkur að betra sé að sekur maður gangi laus, heldur en saklaus maður sitji í fangelsi.

Í reglunni felst því miður engin huggun fyrir þolendur afbrota en réttarríkið krefst slíks fórnarkostnaðar. Dómstóll götunnar má ekki koma í staðinn.