Sósíalistaforinginn Gunnar Smári Egilsson var á miklum villigötum í Fréttablaðinu í vikunni þegar hann hélt því fram að baráttan gegn opnu sjókvíaeldi á laxi snúist um að vellauðugir stangveiðimenn óttist að eldið skaði sportið þeirra.

Góð grundvallarregla í blaðamennsku, sem við Gunnar Smári höfum báðir langa reynslu af, er að setja ekki eitthvað á prent sem maður telur að sé rétt, heldur það sem maður veit að er rétt. Og þá er nauðsynlegt að þekkja söguna og kunna skil á staðreyndum um umfjöllunarefnið, frekar en að láta eigin sýn ráða ferðinni.

Og staðreyndin er sú að tekjur af stangveiði eru ein meginstoð landbúnaðar á Íslandi. Þegar landið er tekið í heild eru tekjur af stangveiði 28 prósent af hagnaði og launakostnaði í landbúnaði. Veiðihlunnindi eru sem sagt ein af grunnstoðum tilveru bændafjölskyldna um land allt. Án þessara tekna þyrfti fjöldi bænda að bregða búi. Á Vesturlandi eru tekjur af stangveiði 69% af hagnaði og launakostnaði í landbúnaði og á Austurlandi er hlutfallið 34 prósent. Þessar tölur koma úr skýrslu sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands gerið 2018.

„Vellauðugu stangveiðimennirnir“ hans Gunnars Smára, eru sem sagt eins og bestu mjólkurkýrnar í fjósinu. Bændafjölskyldurnar mjólka stangveiðifólkið rétt eins og kýrnar.

Og arðurinn af ám með veiðihlunnindi dreifist með óvenju lýðræðislegum hætti, vegna framsýnna laga sem voru sett fyrir um 90 árum. Lögum samkvæmt skulu eigendur bújarða hafa samvinnufélög um skipulag veiða til að tryggja vöxt og viðgang villtra stofna og sjálfbæra nýtingu þeirra á viðkomandi veiðisvæði. Þessi samvinnufélög dreifa svo tekjunum til bænda.

Jarðeigendur mega ekki selja veiðirétt frá jörð. Hann er bundinn henni svo lengi sem áin rennur þar um og færir eigendum sínum verðmæti á meðan villtir laxastofnar þrífast þar.

Heimili á Íslandi sem fá tekjur af villtum laxa- og silungsstofnum eru um 3.400 talsins. Þau eiga ekki skilið þessar köldu kveðjur Gunnars Smára, né heldur lífríki og umhverfi landsins sem sjókvíaeldið skaðar.