Á morgun halda Bandaríkjamenn þakkargjörðarhátíð. Þakkargjörðin er uppskeruhátíð sem á sér sögulegar rætur í heldur blóðugri sögu álfunnar sem verður ekki rakin hér.

Þakkargjörðarmáltíðin samanstendur af þarlendu hráefni þar sem kalkúnn er framreiddur með maísbaunum, sætum kartöflum og trönuberjahlaupi. Það hefur færst í aukana seinni ár að innleiða siðinn víðar, jafnvel hér á Íslandi. Það má færa rök með því.

Hugmyndin um þakkargjörð er ein og sér falleg. Hamingjufræðingar í jógafötum hafa brýnt fyrir almúganum að þakklætið sé lykillinn að gleðinni. Þakkargjörðin er líka vel tímasett, svona rétt fyrir jólin sem eru neysluhátíð.

Það væri ekki svo galið að staldra við og þakka fyrir tásumyndirnar og tónleikahátíðirnar.

Betur hefur gengið að innleiða annan sið frá Bandaríkjunum, Svarta föstudaginn, sem er stærsti útsöludagur í Bandaríkjunum á föstudegi eftir Þakkargjörðarhátíð. Okkur hefur líka reynst vel að innleiða Stafræna mánudaginn á eftir, næst-stærsta útsöludag Kanans.

Reyndar hefur gengið svo vel að innleiða þessa útsöludaga að við höfum fagnað þeim í næstum því mánuð.

Eiríkur Hauks söng hástöfum í lok aldar að hann vildi að alla daga væru jól. Undirrituð var ekki há í loftinu þegar hún áttaði sig á að slíkt væri afleit hugmynd. Jólin eru jú tvisvar á ári af því að hátíðin stendur enn eftir áramót, og það er feikinóg.

Það er léttir sem fylgir þegar jólaskrautið fer í kassann og veruleikinn verður aftur soðin ýsa á þriðjudegi og krumpað Andrésblað.

Það sama á við um útsölurnar. Kona fer hreinlega að sakna þess að láta okra á sér og er þakklát þegar verðin skjótast aftur upp. Verðlag og verðmætamat eru elskendur, dýrt er betra. Það er hin sanna íslenska þakkargjörð.