Í gær var Lisa Montgomery tekin af lífi í Indianaríki í Bandaríkjunum. Hún var fundin sek um að hafa banað Bobbie Jo Stinnett árið 2004 sem þá var komin átta mánuði á leið. Hún var einnig sakfelld fyrir að hafa skorið á kvið Stinnett, fjarlægt barnið og látið sem það væri sitt eigið. Barnið lifði og var komið í hendur föðurins í framhaldi af handtöku ódæðismannsins.

Glæpur Montgomery er svívirðilegur en málsvörn hennar byggði á að hún hafi ekki verið fær um að stjórna gjörðum sínum vegna geðraskana. Af fréttum að dæma var það atriði ekki kannað nægjanlega. Engu að síður var refsingin ákvörðuð – hún skyldi tekin af lífi. Á elleftu stundu var aftökunni frestað en hæstiréttur Bandaríkjanna ákvað engu að síður að aftakan skyldi fara fram.

Á síðasta ári sínu sem Bandaríkjaforseti hefur Donald Trump heimilað ellefu aftökur á vegum alríkisins. Fleiri en öll ríkin samanlagt. Þrátt fyrir þetta hafa aftökur í Bandaríkjunum ekki verið færri í 30 ár.

„Sú aftökuhrina sem á sér nú stað á lokamánuðum Trumps í forsetastól er fordæmalaus og gengur þvert á almenna þróun á beitingu dauðarefsingarinnar, bæði í Bandaríkjunum og á heimsvísu,“ segir Anna Lúðvíksdóttir, framkvæmdastjóri Amnesty á Íslandi, í frétt Fréttablaðsins í síðasta mánuði.

Aftökum hefur farið hratt fækkandi í heiminum á undanförnum árum. Árið 2015 náði fjöldi þeirra hápunkti, 1.634 talsins samkvæmt skýrslu Amnesty, en fjórum árum síðar voru þær 657. Ekki er þó tæmandi talið því til dæmis liggja ekki fyrir tölur frá Kína.

Anna bendir í fréttinni á að 142 ríki heimsins hafi afnumið dauðarefsingar. Aðeins 20 ríki hafi beitt aftökum árið 2019 og mikill meirihluti þeirra í örfáum ríkjum, svo sem Kína, Íran, Sádí-Arabíu, Írak og Egyptalandi. Hvíta-Rússland er eina Evrópulandið sem framkvæmir dauðarefsingar. Þær eru einnig heimilaðar samkvæmt lögum í Rússlandi en síðasta aftakan þar var árið 1996.

Meðal baráttumála Sameinuðu þjóðanna er afnám dauðarefsinga. „Það er ekkert rúm fyrir dauðarefsingar á 21. öldinni,“ er haft eftir Antónío Guterres, aðalframkvæmdastjóra SÞ, á vef samtakanna.

Það er sorgleg og ólíðandi staðreynd að enn skuli koma til álita í heiminum og jafnvel viðurkennt sums staðar að fólki sé refsað með lífláti. Það er lítilsvirðing við mannlegt líf og er þvert á þróun mannréttinda.

Eftir því sem næst verður komist bíða nú um 2.500 fangar aftöku á dauðadeildum fangelsa í Bandaríkjunum einum. Listi af brota sem þetta fólk var sakfellt fyrir er sannarlega ekki fallegur. En það breytir ekki því að gjaldastefna í refsingum, þar sem gengið er út frá að líku skuli gjalda líkt eða víti sé til varnaðar, dregur ekki úr glæpum. Þar við bætist að vist þess sem bíður árum saman á dauðadeild er ómannúðleg ein og sér.

Viðtakandi forseti Bandaríkjanna hefur lýst yfir andstöðu við dauðarefsingar. Búast má við að Bandaríkin færist til mannúðlegri viðhorfa gagnvart refsingum í framhaldinu og brátt heyri dauðarefsingar þar sögunni til