Í morgun vöknuðum við við að körfuboltakarfan hafði fokið ofan á fjölskyldubílinn í innkeyrslunni. Á sama tíma geisa annars konar hamfarir á alnetinu. Reiðistormar keyra um koll skoðanir sem teknar eru úr samhengi og niðrandi orð um eigendur þeirra enduróma á netinu. Það er ekki við reiðina að sakast. Náttúran sá til þess að reiði blossar hæglega upp þegar við teljum tilveru okkar ógnað og að við erum líklegri til að draga fram neikvæða mynd af andstæðingnum. Þess vegna þurfum við að hafa meira fyrir því að skilja sjónarmið sem stangast á við okkar eigin.

Vitur kona sagði fyrir ekki löngu að manneskja sem hrósar segi í raun meira um sjálfa sig en þann sem hrósið er ætlað. Með því varpar hún ljósi á innræti sitt sem er að sjá hið góða í öðrum. Árið 1998 lýstu Skowronski og félagar fyrirbærinu „spontaneous trait transference“ sem þýðir að þegar við segjum aðra búa yfir ákveðnum eiginleika þá séum við í raun að lýsa sjálfum okkur, góðu sem illu. Undirmeðvitundin hafi þá þegar kveðið upp dóm sinn því rökhugsun sé fjarri. Aðrir sem ergja okkur fá því sjaldan að njóta vafans.

Samkvæmt þessu hlýtur að vera hollt að spyrja sig hversu oft við gefum okkur tíma til að skilja hvað öðrum gengur til, þó ekki nema til að leita að hinu góða og læra betur inn á okkur sjálf. Svissnesk-ameríski geðlæknirinn Elisabeth Kübler-Ross sagði eitt sinn: „Við gagnrýnum oft aðra fyrir það sem við óttumst mest í okkur sjálfum.“ Í stað þess að gagnrýna getum við byrjað heiðarlegar opnar samræður og spurt fólk hvað það á nákvæmlega við með því sem það sagði. Þannig öðlumst við skilning og lífið verður örlítið fallegra og kærleiksríkara.