Undanfarna mánuði hefur mér tekist, með herkjum, að hemja sveitakonuna í mér og forðast að baka tíu kíló af smákökum í desember. Í febrúar halda henni hins vegar engin bönd. Hún vaknar úr dvala, ekki blíðlega eins og páskalilja, heldur ryðst fram eins og krapaflóð sem engu hlífir. Hún þarf ekki einungis að skipuleggja matjurtaræktun sumarsins (halló Excel!), heldur forsá þeim tegundum sem þurfa hlýju við upphaf æviskeiðsins, skipuleggja skiptiræktun og tryggja gott kartöfluútsæði. Sem, eðlilega, fer fram í heimagerðu gróðurhúsi á skrifstofunni.

Nýverið ákvað hún að fara alla leið, sem sagt að loka hringnum og búa til sinn eigin jarðveg. Einhver eiga kannski erfitt með að skilja gleðina sem er falin í því að sjá lífrænt eldhúsrusl breytast í áburð og síðar í jarðveg, sem síðan breytist í grænmeti sumarsins. Trúið mér bara, gleðin er botnlaus.

Í þessu öllu felst þó ekki bara persónulegur ávinningur; grænmeti laust við eiturefni, líkamleg vinna, útivist og andleg næring. Við flytjum inn, í tonnatali, fjölda grænmetistegunda sem er nokkuð auðvelt að rækta í venjulegum garði á Íslandi yfir sumartímann. Innflutningurinn krefst þess að við brennum jarðefnaeldsneyti - en um það bil fjórðungur gróðurhúsalofttegunda verður til við iðnaðarframleiðslu og flutning matvæla.

Væri ekki gáfulegra að hvetja fólk til að nota hluta grasbletta sem eru í kringum flest hús til að rækta matjurtir? Þó það dugi kannski ekki fyrir allt sem við borðum þá komumst við samt furðu langt. Það borgar sig nefnilega að rækta garðinn sinn, fyrir okkur og jörðina. n