Í öllu því flóði af texta um Covid-19, um: bólusetningar, sóttvarnir, takmarkað ferðafrelsi, hvernig baráttan gengur í útlöndum, afkomu fyrirtækja, stöðu ríkissjóðs o.s.frv. o.s.frv., megum við alls ekki gleyma þeim, sem lögðu grunninn að þeim baráttuaðferðum, sem við nú beitum í glímu okkar við hinn skæða óvin – Covid 19 Corona veiruna.

Og sú veira er ekkert lamb við að eiga og áttu því einmitt vel við þau orð, sem einn af okkar fremstu vísindamönnum lét ummælt um hana í upphafi faraldursins – að hún væri “ … hið mesta ólíkindatól“.

Ein er sú baráttuaðferð sem við nú notum, en það er handþvottur. Hamrað er á um gildi hans æ ofan í æ.

En hver var frumkvöðullinn að þessari hreinlætisaðferð, sem ein og sér getur skipt sköpum um líf og dauða og er nú notuð á öllum spítölum heims?

Það var hinn nokkuð þekkti, en að mínu viti allt of vanmetni, læknir og vísindamaður Ignaz Semmel­weis. Gleymum ekki, gleymum aldrei, að honum að þakka björguðust ótal mannslíf um allan heim, en gleymum heldur ekki hvernig samtími hans fór með hann.

Ég ætla að henda hérna fram örstuttri lýsingu á örlögum þessa manns, sem konur kölluðu bjargvætt kvenna.

Semmelweis var læknir, fæddur 1818 í Ungverjalandi, og starfaði sem aðstoðarlæknir prófessors við fæðingardeild Almenna sjúkrahússins í Vínarborg en hún var sú stærsta í heimi á þessum tíma. Hann vildi komast að því hvers vegna svo margar konur dóu úr barnsfararsótt á spítalanum.

Með nákvæmri athugun og samanburði, já og innsæi, komst hann að þeirri niðurstöðu að um væri að ræða eitthvað, sem læknar og læknanemar báru með sér á höndunum eftir að hafa krufið lík kvenna, er látist höfðu af barnsfararsótt, og farið síðan að skoða sængurkonurnar.

Hann fyrirskipaði að tekinn skyldi upp handþvottur úr klórupplausn og með þessu stórlækkaði dánartíðni þeirra kvenna sem voru í hans umsjá á spítalanum.

Uppgötvun Semmelweis var afar illa tekið af hans eigin stétt og endaði sú barátta með því að andlegt þrek þessa mikla mannvinar dvínaði og honum var komið fyrir á geðveikrahæli þar sem hann svo lést eftir tvær vikur aðeins 47 ár gamall – vegna barsmíða! (Nuland). Fræðimenn eru ósammála um hvernig dauða hans bar að höndum og væri verðugt verkefni að komst að sannleikanum í því efni.

Að Semmelweis sé ekki metinn að verðleikum hér á landi má sjá af því að hvorki hefur bók verið skrifuð um hann á íslensku né heldur erlend bók um hann verið þýdd á íslensku. Það sem ég hef náð í á okkar máli er ágæt grein í Tímariti hjúkrunarfræðinga frá árinu 2008 og svo gott yfirlit á Vísindavefnum.

Orðatiltækið að njóta sannmælis er gamalt og gott íslenskt orðatiltæki, sem á einkar vel við að nota nú á dögum Covid, um Semmelweis lækni.

(Góðar bækur um Semmelweis: Childbed Fever, höf. K.Codell Carter og Barbara R. Carter, The Doctors Plague, höf. Sherwin B. Nuland, Genius Belabored, höf. Theodore G. Obenchain, ef einhver myndi nú þýða þó ekki væri nema eina af þessum bókum).