Aflið eru samtök gegn kynferðis og heimilisofbeldi á Norðurlandi og hefur starfað á Akureyri frá árinu 2002. Tekið er á móti öllum þeim sem orðið hafa fyrir hverskyns ofbeldi í sinni víðustu mynd. Hugmyndafræði Aflsins byggir á því að mæta þolendunum á jafningjagrundvelli. Það getur verið stórt skref að leita sér hjálpar eftir að hafa orðið fyrir ofbeldi og því er einn af mikilvægustu þáttunum í ráðgjafa vinnunni að taka alltaf mark á reynslu og upplifun þeirra sem beittir hafa verið ofbeldi.

Hver og ein upplifun er einstök og mikilvægt er að mæta einstaklingum þar sem hann er staddur hverju sinni. Unnið er út frá því að hver og einn sé sérfræðingur í eigin lífi og stjórni því best sjálfur hvernig og hvenær unnið er úr afleiðingum ofbeldisins. Þolendur mæta skilningi frá ráðgjöfum sem sjálfir hafa upplifað áföll og unnið úr þeim og geta þannig miðlað þeirri reynslu til skjóstæðinga sinna.

Ábyrgðin á ofbeldinu liggur alltaf hjá gerandanum, en enginn getur þó unnið úr því nema þolandinn sjálfur og þá er mikilvægt að geta leitað í reynslu annarra sem gengið hafa í gegnum einhverskonar áföll. Auk einstaklingsráðgjafa er boðið upp á sjálfshjálparhópa þar sem einstaklingar sækja styrk til að takast á við afleiðingar ofbeldis til annarra með svipaða reynslu undir umsjón ráðgjafa. Auk þess stendur Aflið að forvörnum og fræðslu um starfsemina sem og að bjóða upp á fræðslu um afleiðingar kynferðis- og heimilisofbeldis og þau úrræði sem eru í boði fyrir þolendur.

Aflið þjónar þolendum ofbeldis og aðstandendum allstaðar af landinu með sérstaka áherslu á Norður- og Austurland. Mikil þörf er á samtökum af þessu tagi og eru samtökin þau einu sinnar tegundar á allri landsbyggðinni. Starfsemin hefur aukist umtalsvert á síðastliðnum árum en árið 2018 tóku ráðgjafar Aflsins á móti 124 nýjum skjólstæðingum og í heildina voru veitt 1460 einstaklingsviðtöl. Flestir sem leita til Aflsins eru búsettir á Akureyri og nágrenni en þó er talsvert af einstaklingum sem koma frá bæjarfélögum í kring. Á síðasta ári komu sem dæmi 7,6% skjólstæðinga frá svæðinu frá Siglufirði að Blönduósi og 9,7% komu frá svæðinu austan Akureyrar að Mývatnssveit.

Öll ráðgjöf Aflsins er þolendum og aðstandendum þeirra að kostnaðarlausu.

Höfundur er verkefnastjóri Aflsins.

Greinin er liður í 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi.