Þegar ryksugupokarnir mínir klárast þarf ég að fara fjórar ferðir í búðir til að kaupa nýja. Þrátt fyrir að skoða vandlega alla pokana sem í boði eru og flokka frá þá sem ekki eru sérmerktir minni tegund af ryksugu, þá kaupi ég alltaf fyrst ranga ryksugupoka. Svona gengur þetta í nokkur skipti, þar til ég loksins ramba á þá réttu og get þá hent öllum vitlausu pokunum sem ég hef keypt og sóað.

Ég var líka að henda um 200 kaffipokum. Því ég man aldrei hvort ég á að kaupa stærð 4 eða 2. Ég tengi álíka illa við þessar stærðir og gallabuxnastærðir í tommum. Ég veit ekki einu sinni hvort númerið gefur mér stærri kaffipoka, hvað þá að ég muni hvað henti minni kaffivél.

Þess vegna elska ég staðla. Það er einhver búinn að skilgreina ríkisstærðina svo að ég þurfi ekki að muna hvaða undirtegund af ryksugu ég á, til að geta gengið að réttri stærð af ryksugupokum vísum. Þetta hefur bandaríski herinn bestað og því er það í NATO-samþykktum hvaða stærð af skrúfum skuli vera til á Keflavíkurflugvelli.

Hleðslusnúrum í síma hefur nú fækkað úr 7.000 tegundum í þrjár. Vegna þess að ESB setti staðla til að verja neytendur. Þessum snúrum ætlar ESB, í óþökk Apple, að fækka í eina. Svo að hleðslusnúran virki fyrir alla síma og þú getir tengt allar gerðir heyrnartóla við hann. Ef ESB tekur upp á því að samræma líka stærðir á ryksugupokum mun ég persónulega óska eftir aðild að þessu bandalagi sem ver mína neytendahagsmuni.