Að koma fótunum undir íslenskt efnahagslíf Landnámskonur helguðu sér land með því að teyma kú milli staða frá sólarupprás til sólseturs. Búfé var helsta eign og gjaldmiðill formæðra okkar og forfeðra og hlaut þannig merkinguna peningar. Norrænar krónur mörkuðu síðan verðgildi hlutanna. Danska krónan varð okkar viðmið þar til íslenska krónan leysti hana af hólmi. FÉ er eftir sem áður orðið sem við notum í hinu fjárhagslega samhengi.

Önnur mælistika, sem við erfðum frá okkar gömlu herraþjóð Dönum, var gullfóturinn. Hann vísaði í tiltekinn gullforða að baki hverri krónu og stemmdi þannig stigu við óhóflegri útgáfu seðla eða myntar.

Í dag tíðkast í stað gullfótar svokallaður „pappírsfótur“ sem byggist á trausti á fjármála- og peningastefnu tiltekins ríks. Þar skiptir miklu trúin á að stjórnvöld standist þá freistingu að prenta nýja seðla til að mæta hagsveiflum. Gengisfelling heitir þessi freisting. Á Íslandi hélt forysta sjávarútvegsins áratugum saman um skjálfandi hönd fjármálaráðherra þegar krafan var að fella gengið – í þágu útgerðarinnar en á kostnað almennings.

Verðtrygging var neyðarráðstöfun

Galskapurinn í okkar litla efnahagskerfi leiddi til þess að Íslandi mátti líkja við bananalýðveldi. Yfir 130% verðbólga mældist á 3 mánaða tímabili 1983 og verðskyn Íslendinga hrundi. Sparifé þeirra gufaði upp og loks var gripið til þeirrar neyðarráðstöfunar að koma á verðtryggingu sem tók til launa fólks, lána og innistæðna. Í fyrstu töldu flestir að um tímabundna ráðstöfun yrði að ræða. Sumir líta þannig enn á málin en aðrir telja verðtryggða krónu skárri gjaldmiðil en óstöðuga örkrónu.

Hin „tímabundna“ verðtrygging neyðarástandsins er enn í fullu gildi með sínum bólgukenndu hliðarverkunum og okuráhrifum. Líklega býr einungis Chile við slíka „verðtryggingu“ auk Íslands. Nágrannaþjóðir okkar undrar að við sem auðug þjóð höfum ekki löngu sagt skilið við þetta þriðja heims neyðarlagafyrirkomulag, komið okkur upp stöðugum gjaldmiðli og bundið endi á öll þessi undarlegheit. Til dæmis er algerlega óviðunandi að ungt fólk þurfi að greiða kaupverð íbúða sinna þrisvar til fjórum sinnum á 30-40 ára lánstíma á meðan jafnaldrar í öðrum löndum greiða lága vexti og borga kaupverð sinna íbúða rúmlega einu sinni.

Okkur ber skylda til að verja íslenskan almenning gegn heimatilbúnu okri. Þar má sérstaklega benda á sligandi verðtryggingu neytendalána á tímum mikillar verðbólgu og verðhækkana á nauðsynjavörum og húsnæði. Við blasir að það hentar fjármagnseigendum aldeilis prýðilega að halda óbreyttu fyrirkomulagi, sem þjóðarskömm er að.

Stærsta áskorun íslenskra stjórnmála

Stærsta áskorun íslenskra stjórnmála er að koma hagkerfi okkar á heilbrigðan grunn stöðugleika sem almenningur nýtur góðs af. Efla þarf traust á innviðum landsins, afurðum, alþjóðaviðskiptum, stækkandi efnahag og pólitískum stöðugleika.

Margt hefur vissulega gengið okkur að sólu undanfarinn áratug og ábatasamt atvinnulíf hefur eflt hag þjóðarinnar, að frátöldum þeim landsmönnum sem skildir hafa verið eftir utan gátta og við fátækramörk. Lífsgæði eiga ekki að vera einkaréttur útvalinna. Hér verður að gilda það lögmál að öflugra atvinnu- og efnahagslíf, byggt á auðlindum þjóðarinnar, verði nýtt sem kjölfesta alvöru velferðar, sem tekjulágar barnafjölskyldur, öryrkjar og sá hluti eldra fólks sem býr við sára fátækt njóti líka góðs af!

Hinn litauðgi Þjóðarsauður

Sóknarfærin eru víða. Græn orka, mun senn leysa af hólmi svarta gullið, olíuna, sem orkugjafi. Af græna gullinu eigum við nóg og tækifærin til að laða hingað til lands vistvæn nýsköpunarfyrirtæki á tímum orkukreppu í Evrópu eru gríðarleg. Á komandi árum mun Ísland að óbreyttu færast enn ofar á lista OECD yfir auðugustu þjóðir heims. Sú staða færir okkur aukin færi til sóknar í betra og heilbrigðara efnahags- og myntumhverfi. Hugum nú enn að fé voru (sjá mynd).

Þjóðarsauðurinn væni stendur traustum fótum á fjórum meginstoðum, gulum, rauðum, grænum og bláum. Við sjáum Gulfót hugverka og skapandi greina, Grænfót grænnar orku og auðlinda jarðar, Bláfót sjávarútvegsins og Rauðfót, stöndugan, sístækkandi fót ferðamannageirans. Verslun, þjónusta og fjölmargar velmegunarskapandi greinar mynda svo líkamann sem tengir ganglimina saman.

Vaxtarfærin blasa alls staðar við, í fiskveiðum, fiskeldi, ferðaþjónustu, nýsköpun, skapandi greinum, hugverkaiðnaði og vistvænni matvælaframleiðslu, að ekki sé minnst á spurn eftir grænu orkunni sem knýja mun hagkerfi framtíðarinnar. En hvers konar samfélag viljum við skapa afkomendum okkar til langrar framtíðar, hver verður arfleifð okkar? Þar með talinn fjárhagslegur stöðugleiki, undirstaða lífsgæða, öryggis og almennrar velferðar.

Að þora að horfast í augu við tækifærin

Í nýrri og stórmerkri ævisögu Dr. Jóhannesar Nordal kemur fram að meginverkefni hans í hartnær fjóra áratugi sem seðlabankastjóri var stríðið við vindmyllur verðbólgu, vaxta og launa. Það var vonlaust stríð, því að ekki mátti ráðast að rótum vandans, heldur afleiðingum hans. Nú, 40 árum síðar, erum við enn að glíma við sama verðbólgudrauginn án þess að hafa náð þeim stöðugleika sem við sækjumst öll eftir. Við þurfum að læra af öðrum þjóðum.

Við verðum að þora að horfast í augu við tækifærin engu síður en vandann. Vera víðsýn. Við erum ekki á leið í ESB en verðum að leita raunhæfra leiða til að tryggja að gjaldmiðill okkar njóti trausts í alþjóðaviðskiptum. Þar koma nokkrar leiðir til álita. Við verðum að tryggja íslenskri þjóð alvöru stöðugleika og betra samkeppnisumhverfi m.a. á hinum smávöxnu íslensku fjármála- og tryggingamörkuðum, en höfum jafnframt hugfast að traust á gjaldmiðli ræðst ekki við skrifborð heldur á markaði.

Lokaorð

Aðalatriðið er þetta: Við í Flokki fólksins viljum að almenningur á Íslandi, einstaklingar, fjölskyldur og fyrirtæki, fái notið þeirra mannréttinda að geta treyst því að tekin lán og lánskostnaður, vextirnir, sem um er samið í upphafi, standist. Punktur og basta!

Hvers vegna eiga Íslendingar að sætta sig við það einir nágrannaþjóða að lifa í spilavíti, þar sem við vitum aldrei frá degi til dags, hvaða refsivexti morgundagurinn dæmir okkur til að greiða? Oftar en ekki í ævilangt skuldafangelsi. Hvers konar rugl er það?

Við erum rík þjóð. Allar aðrar ríkar þjóðir hafa fyrir löngu leyst þetta eilífðarvandamál lýðveldisins til frambúðar. Eigum við ekki að sameinast um að fara að þeirra fordæmi? Óhjákvæmilegt mun að brjóta múra sérhagsmuna til að bæta kjör almennings!