Þátttaka almennings á hlutabréfamarkaði hefur stóraukist á undanförnum misserum. Í lok síðasta árs áttu 30 þúsund Íslendingar skráð hlutabréf í Kauphöllinni en í því samhengi má nefna að þeir voru 9 þúsund í lok árs 2019.

Sú mikla fjölgun sem hefur átt sér stað er vissulega fagnaðarefni enda hafa vextir verið sögulega lágir að undanförnu og raunávöxtun innlánsreikninga verið neikvæð. Því er eðlilegt og jákvætt að almenningur hafi leitað betri leiða til að ávaxta sinn sparnað eins og til að mynda í hlutabréfum eða sjóðum.

Það er óhætt að segja að að undanförnu hefur áhugi fólks og einkum ungs fólks á fjárfestingum aukist til muna. Krafan um að meiri áhersla verði lögð á fjármálalæsi í menntakerfinu verður sífellt háværari og við sjáum að áhugi fyrir þátttöku í hlutafjárútboðum fyrirtækja hefur verið mikill.

Allt er þetta í sjálfu sér jákvætt en þó er vert að hafa í huga að varasamt er að menn séu ekki meðvitaðir um áhættuna sem felst í því að fjárfesta í hlutabréfum.

Á síðasta ári var erfitt og í rauninni ekki hægt að tapa á því að fjárfesta í innlendum hlutabréfum. Úrvalsvísitalan hækkaði um rétt tæp 33 prósent og fjárfesting í langflestum fyrirtækjum á innlenda markaðnum gaf virkilega vel af sér. En nú er farið að syrta í álinn. Markaðsaðstæður hafa sjaldan verið jafn krefjandi og nú. Úrvalsvísitalan hefur lækkað um rétt rúm 17 prósent frá áramótum og vísbendingar eru um að markaðurinn stefni í bjarnarmarkað. Það þýðir ekki endilega að fólk eigi að hætta að fjárfesta í hlutabréfum heldur er staðan aðeins áminning um það hversu mikilvægt það er að taka upplýsta ákvörðun um tilhögun sparnaðar.

Það að fjárfesta í einstökum hlutabréfum getur verið áhættusamt og krefst yfirgripsmikillar þekkingar sem verður ekki lærð á örskotsstundu. Því er oft mælt með að þeir sem hvorki hafa menntun né þekkingu á fjármálum ættu fremur að fjárfesta í sjóðum heldur en einstökum hlutabréfum, að minnsta kosti til að byrja með. En jafnvel þótt einungis sé fjárfest í sjóðum er mikilvægt að fylgjast vel með mörkuðum og efnahagsumræðunni til að geta brugðist við atburðum í tíma.

Undirrituð vonar að áhugi fólks á því að fjárfesta í hlutabréfum muni aukast enn frekar þegar fram líða stundir og traust almennings á hlutabréfamarkaðnum eflist. Til að svo megi verða er mikilvægt að efla fjármálalæsi í menntakerfinu en einnig að fólk haldi áfram að afla sér þekkingar á því sviði. Því fjárfesting í þekkingu gefur yfirleitt mest af sér.