Í staðinn fyrir að ríkisstjórnirnar frá hruni höfðu verið að hjálpa þeim með úræði sem að gátu ekki brúað bilið um íbúðarkaup sín var þeim neitað frá lánastofnunum. Það eru engin úræði komin þó að Ásmundur Daði félagsmálaráðherra í núverandi ríkisstjórn hafi látið skrifa annað í lofsamlegri skýrslu um húsnæðismál. „Fæði, klæði og húsnæði eru almennt taldar til grunnþarfa hvers einstaklings. En það er ekki nóg að hafa þak yfir höfuðið heldur er öruggt húsnæði grunnurinn sem við byggjum líf okkar á. M.a. af þeirri ástæðu hefur ríkisstjórnin lagt sérstaka áherslu á húsnæðismál í stjórnarsáttmála sínum og þá sérstaklega aðgerðir til þess að lækka þröskuld ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkaðinn“.

Það vantar framkvæmd í ríkisstjórnina

Skýrsla eða lofsamleg umræða segir ekkert um framkvæmd fyrirfram ef henni er ekki fylgt eftir. Þær eru bara til að hnoða væntingar í huga fólks. Ríkisstjórnin forgangsraðar ekki rétt. Það sem þarf að gera er að byggja húsin. Allt frá grunni þar til að fólk geti flutt inn. Fasteignaverð þarf að vera viðráðanlegt.

Kaupleiga er ekki kaupleiga

Ég og konan mín vorum að kaupa okkur fyrstu íbúð fyrir rúmlega ári síðan. Við sáum fyrst auglýsta kaupleigu og fannst það alveg kjörið tækifæri, þar til að við sáum skilmálanna. Þegar að þú kaupir á kaupleigu á Íslandi, þá borgar þú ákveðna upphæð og þarft svo að leigja íbúðina. Þegar að þú selur færðu einungis upphæðina sem að þú greiddir í upphafi til baka, en ekki leiguna. Skilmálarnir eru þannig að þú borgar leigu eins og af öðrum íbúðum, en kaupir búseturétt. Það er ekki kaupleiga eins og hún gerist í öðrum löndum í kringum okkur. Þar borgar fólk umsamda upphæð við samning og síðan borgar viðkomandi leigu þar til að húsnæðið er að fullu greitt. Þá á fólkið íbúðina. Ég get alveg séð fyrir mér að lífeyrissjóðir og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun gætu vel fjármagnað slíkt kerfi.

Úræðin sem að ríkisstjórnin lofaði eru ekki til staðar

Við gátum ekki staðið við lokagreiðsluna m.a. vegna ástandsins í þjóðfélaginu. Við þurfum nú að flytja út í minna húsnæði eða út fyrir bæinn á ódýrari stað. Við getum ekki tekið bankalán eða önnur lán vegna þess að úræðin sem að ríkisstjórnin lofaði eru ekki til staðar. Okkur hafði hlotnast að spara með sölu listaverka og sérverkefna því tengdu, þá áttum við pening fyrir útborgun. Við gátum tekið húsnæðislán fyrir sameiginlegar tekjur okkar. Konan mín missti svo tekjurnar í upphafi ástandsins sem að hefur verið óbreitt síðan þá. Þetta er algengt hjá tekjulágu fólki. Við búum í minnstu íbúð í þríbýli. Við hefðum getað fengið allt húsið í kringum aldamótin fyrir verðið sem að við greiddum fyrir íbúðina fyrir ári síðan. Þegar fólk er að taka húsnæðislán til 35 ára að upphæð ISK 30.000.000,- þá er það að greiða til baka ISK 113.736.654,- samkvæmt reiknivél Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Við viljum lækka höfuðstól lánana verulega. Það þarf að hækka takmörkin um að viðkomandi geti tekið húsnæðislán upp allt að 95% fyrir kaupum á fasteign á lægri vöxtum.

Leigufélög fengu íbúðir á kúk og kanil frá Skjaldborgarstjórninni

Í Skjaldborgarstjórn Jóhönnu og Steingríms J. eyðilögðu þau það sem að fólk var búið að koma sér upp. Margar af þessum íbúðum fóru á nauðungarsölur og inn í nýstofnuð leigufélög sem að fengu þær langt undir verði. Fasteignirnar voru síðan leigðar út fyrir okur verð. Það skilaði ofur gróða árin á eftir sem að eflaust hefur mikið verið fluttur í skattaskjól. Leynd var sett yfir allt saman hjá Skjaldborg heimilanna.

Stjórnvöld hugsa eins og braskarar

Mér vitanlega þá eru húsnæðismál í niðurníðslu. Margt ungt fólk býr enn í foreldrahúsum fram eftir aldri og verðlag á íbúðum er haldið í hámarki af bönkunum. Það er mjög dýrt að kaupa eða leigja. Fólk sér bara enga framtíð hér á landi og er að flýja ástandið. Það eru fullt af nýbyggingum með íbúðum sem að standa auðar vegna þess að almenningur getur ekki keypt þær. Yfirvöld vilja hámarka söluna á þessum eignum. Það vilja bankarnir líka, byggingafélögin og fasteignabraskararnir.

Gamla pólitíkin með hræðsluáróður á kjósendur

Eiginlega virkar pólitík gömlu flokkanna í landinu sem þvingunarvald. Ef að fólk er með gagnrýni á það sem betur mætti fara í þjóðfélaginu eða kýs ekki rétt. Þá munu flokkarnir reyna að draga fólk niður og skemma fyrir því. Það hefur lengi verið lenska. Meginþorri almennings er hræddur um að lenda í hakkavél flokkanna. Verið óhrædd. Almenningur getur breytt þessu fyrir kosningar með að skrúbba spillingunni út af þingi og setja restina í stjórnarandstöðu. Það er mikilvægt að kjósa, en að gefa gömlu flokkunum atkvæði sín ef fólk vill breytingar á samfélaginu er vitleysa.

Stefnumál okkar er að þak verði sett á húsnæðisleigumarkað

Við viljum að fólk geti fengið lán á hagstæðum kjörum frá ríkinu til að kaupa íbúð og að leiga sé viðráðanleg fyrir alla. Framkvæmd er þannig að sömd verða skilyrði í lánasamning. Kaupendur sem að þurfa húsnæðislán, lífeyrissjóðslán, ríkisbankalán, styrk frá sveitarfélagi eða íslenska ríkinu vegna fasteignakaupa, en vilji leigja áfram út til annars aðila þurfi að halda leigunni innan skynsamlegra marka fyrir leigjendur. Ákveðið getur verið hvað leigan á að vera samkvæmt stöðluðu hámarksverði frá hinu opinbera eftir staðsetningu, fermetrum, ástandi og kostnaði fasteignar. Ákvæðið í samningnum myndi gera það mögulegt að þak yrði komið á leigumarkað.

Höfundur er listamaður, kvikmyndagerðarmaður og formaður Landsflokksins.