Eflaust eru fréttir af nýju gosskeiði á Reykjanesi þeim þungbærar sem sjá ekkert jákvætt við innanlandsflugvöll í Vatnsmýri og eygja þar byggingarland. Enda kallar það á nýja staðarleit fyrir annan flugvöll sem bæði kostar og tekur tíma. En hvaðan kemur þessi ofuráhersla á Vatnsmýrina og brottnám Reykjavíkurflugvallar? Ef þetta snýst um peninga þá uppsker borgin stórfé árlega í formi fasteignaskatta frá flugvellinum og sparar sér og ríkinu það rándýra flækjustig sem felst í brottflutningi. Því ekki dekkar ágóðinn af sölu byggingarlandsins kostnaðinn við að byggja nýjan flugvöll og það þyrfti að endurskipuleggja og byggja við allar vegatengingarnar á svæðinu til að rúma mannfjöldann. Auk þess er til mun betra byggingarland í Reykjavík og örvæntingin ekki slík að mýrarnar séu okkar eina val. Þeir gallhörðustu bera þá fyrir sig að hvergi sé flugvöllur hafður í miðri borg, en skyldu þeir heimsækja miðbæ Toronto geta þeir gengið um 50 mínútur að næsta innanlandsflugvelli sem líkt og Reykjavíkurflugvöllur annar farþegaflugi, innanlandsfrakt og flugkennslu. Nálægðin við miðborgina styttir akstursvegalengdir þar sem og hérlendis sem er umhverfisvænna. Kostirnir við Reykjavíkurflugvöll eru þannig fjölmargir, fyrir utan sögulega gildið.

Um daginn var ég að fletta bók um sögu Reykjavíkur upp úr aldamótunum 1900 og viti menn, þá var helsta pólitíska hitamálið að fylla upp í Reykjavíkurtjörn í nafni stækkunar byggingarlands miðsvæðis, sama röksemdafærsla og er að baki brottflutnings Reykjavíkurflugvallar! Reyndar var þörfin fyrir meira beitiland líka nefnd. Nú þykir það fáránleg hugmynd að fórna Tjörninni fyrir byggingarland en það tók hálfa öld að komast að þeirri niðurstöðu og þá ætti Reykjavíkurflugvöllur að fá frið eftir 25 ár ef sagan endurtekur sig. Líklega er síðasti Reykvíkingurinn ekki fæddur sem telur ómælda þörf á byggingarlandi á þessu svæði, sama hvað það kostar, en ætli það verði Öskjuhlíðin eða Miklatún sem lendi í skotlínunni árið 2050?