Ég sit við eld­hús­borðið heima hjá mér í Lundúnum. Mjólk súrnar í morgun­verðar­skál og banana­hýði tekur á sig lit, hægt en örugg­lega eins og Ís­lendingur við sund­laugar­bakka á Tene. Venju­lega verða þessar hug­leiðingar til yfir kaffi með froðu (og smjör­deigs­horni ef ég er ekki í að­haldi, fjár­hags­legu eða líkam­legu) á litlu kaffi­húsi í næstu götu við mig. En ekki núna. Á­stæðan er kapítalískur mis­brestur, eða eins og það kallast á manna­máli: græðgi.

Það veitir mér enga gleði að sjá kapítal­­ismanum verða á. Mér þykir vænt um hann. Ég nýt góðs af honum á mörgum sviðum. Froðu­kaffið og smjör­deigs­hornið er að­eins brot af því besta. Það fýkur því í mig þegar þeir, sem segja sig heitustu boð­bera markaðs­hag­kerfisins, standa því fyrir þrifum.

Fyrir mánuði varð stór­flóð hér í Islington-hverfi þar sem ég bý. Þungur straumur sem náði mönnum upp að mitti flæddi um götur. Hálfan dag tók að dæla vatninu burt. Fjöldi heimila og fyrir­tækja varð fyrir skemmdum. Ný­upp­gert kaffi­húsið, sem ég notaði sem skrif­stofu, gjör­eyði­lagðist. ­­Í­þrótta­mið­stöð barna hverfisins hefur verið lokað um ó­fyrir­sjáan­lega fram­tíð.

Þegar upp­tök flóðsins urðu ljós greip um sig reiði. Or­sökin var sprungin vatns­leiðsla. Árið 1989 var vatns­veita á Eng­landi einka­vædd. Var þeirri á­kvörðun ætlað að auka skil­virkni og fjár­festingar í inn­viðum. Raunin varð önnur.

Nokkrum dögum eftir flóðið í Islington bað vatns­veitan í London við­skipta­vini um að minnka vatns­notkun sína; ekki fara í bað, bara sturtu; ekki vökva garðinn. Vatns­skortur blasti við, að sögn vegna þurrka yfir sumar­mánuðina. Bónin féll í grýttan jarð­veg; málið var ekki svo klippt og skorið.

Frá árinu 1989 hafa fjár­festingar í við­haldi vatns­leiðslna á Eng­landi verið af svo skornum skammti að tuttugu prósent alls neyslu­vatns fara til spillis vegna leka. Á­stæðan sést í efna­hags­reikningum. Á árunum 2007-2016 voru níu­tíu og fimm prósent hagnaðar vatns­veitu­fyrir­tækja greidd út sem arður. Meira að segja dag­blaðið Financial Time, Pra­vda frjáls­hyggjunnar, boðaði á dögunum að „tími væri kominn til að viður­kenna að það hefðu verið mis­tök að einka­væða vatns­veituna.“

Í ó­þökk al­mennings

Bjarni Bene­dikts­son fjár­mála­ráð­herra steig fram á völlinn í vikunni og kynnti fjár­laga­frum­varp næsta árs. Þar gaf hann hluta liðs síns langt nef og eins­pilaði í átt að markinu – eða tak­markinu sem virtist vera aukinn einka­rekstur í heil­brigðis­kerfinu. „Ég tel að við munum ná mun meiri árangri ef við aukum sam­starf opin­berra aðila við einka­aðila,“ sagði Bjarni.

Stefnu­breytingin kom sam­starfs­flokki Bjarna, Vinstri grænum, í opna skjöldu. „Sterkt opin­bert heil­brigðis­kerfi hefur verið kjarni ís­lenskrar heil­brigðis­þjónustu allar götur,“ sagði Svan­dís Svavars­dóttir, mat­væla­ráð­herra og fyrr­verandi heil­brigðis­ráð­herra. „Ekkert er að finna í stjórnar­sátt­mála um að það kunni að vera til endur­skoðunar.“

Einka­væðing vatns­veitunnar á Eng­landi var gerð í ó­þökk al­mennings. Jon­a­t­han Portes er hag­fræði­prófessor við einn virtasta há­skóla Bret­lands. Hann vann við að út­færa einka­væðinguna árið 1989. Hann segir skatt­greið­endur hafa stórtapað þegar ríkis­eignir voru seldar á undir­verði og neyt­endur hafa verið of­rukkaða fyrir grunn­þjónustuna allar götur síðan.

Það er hvim­leið bók­stafs­trú að halda að allt farist einka­aðilum sjálf­krafa betur úr hendi. Fátt kemur að auki jafn­miklu ó­orði á kapítal­is­mann og illa í­grunduð einka­væðing.

Stendur aukinn einka­rekstur innan heil­brigðis­kerfisins fyrir dyrum? Bjarni segir já. Svan­dís segir nei. En hvert er svarið? Sam­ræðu er þörf. Heilsa þjóðar – og kapítal­ismans – er í húfi.