Þegar trú þín á eigin getu og ágæti er skekkt af því að það er búið að telja þér trú um að þú sért lítils virði eða að enginn annar vilji vera í sambandi með þér. Þú ert einnig farin að efast um að þú getir staðið á eigin fótum ef þú ferð og kannski ertu fjárhagslega háð/ur/tt maka þínum. Von þín um að þú getir breytt honum eða breytt einhverju í þínu fari þannig að hann mildist er alltaf til staðar. Hjartað og rökhugsun þín fara ekki saman, þú veist að þú ert í ofbeldissambandi en „þú ert ennþá ástfangin/n/ð“. Þessar tilfinningar og hugsanir gætu bent til þess að það hafi myndast svokölluð áfallatengsl í ofbeldissambandi (e. trauma bond) milli þín og maka þíns.

Áfallatengsl geta komið fram eftir að ofbeldishringurinn hefur endurtekið sig innan sambandsins í einhvern tíma. Ofbeldishringurinn er vítahringur sem rúllar stöðugt í sambandinu. Hringurinn byrjar á því að spenna fer að myndast, sá sem beitir ofbeldi magnar svo spennuna með árás sem getur verið andleg, líkamleg og/eða kynferðisleg og kennir svo maka sínum um ástandið. Eftir að það er búið að losa um spennuna koma „hveitibrauðsdagarnir“ á ný en á því stigi er meiri ró og sá sem beitti ofbeldinu gæti reynt að biðjast afsökunar, gefa gjafir, segja eitthvað fallegt eða það verður bara smá logn inná milli storma. Á hveitibrauðsdögunum getur þolandinn talið sér trú um að þessi árás hafi verið sú síðasta og að nú sé sambandið komið á rétt ról og jafnvel gerir lítið úr því sem átti sér stað eða gleymir því.

Á meðan spennustigið varir framleiðir líkami þolandans spennu sem losnar síðan á hveitibrauðs stiginu það veldur því að líkaminn byrjar þá að framleiða hamingjuhormón eða dópamín. Samspil ofbeldisins, andlegra og líkamlegra viðbragða við ofbeldinu myndar síðan þessi áfallatengsl. Dutton og Painter (1981) töluðu um áfallatengsl í rannsókn sinni um afleiðingar heimilisofbeldis á kvenkyns þolendur þar sem birtingarmynd ofbeldis var andlegt og líkamlegt ofbeldi. Í þeirri rannsókn voru gerendur karlkyns.

Það skal hinsvegar taka fram að öll kyn geta orðið fyrir ofbeldi og myndað þessi áfallatengsl. Þau Dutton og Painter vildu meina að leiðin inn í ofbeldissamband væri í raun félagsleg gildra þar sem fyrstu rauðu ljósin um ofbeldishegðun litu út fyrir að vera frávik frekar en eðlileg hegðun hjá einstaklingum. Þessi fráviks hegðun ætti sér stað á byrjunar stigum sambandsins þar sem ríkti ákveðin bjartsýni og spenna fyrir sambandinu og því var auðveldara fyrir einstaklinginn að afsaka hegðunina. Á síðari stigum sambandsins fara hinsvegar atvikin að verða fleiri og áður en konan veit af er hún komin inn í þennan ofbeldishring.

Dutton og Painter (1981) töldu að það væru tveir þættir sem hefðu áhrif á áfallatengslin en það er annarsvegar valda ójafnvægi í sambandinu þar sem annar aðilinn er með tök á hinum og hinsvegar eðli ofbeldisins. Ójafnvægið getur legið í því að annar einstaklingurinn er fjárhaglega eða félagslega sterkari eða að það sé mikill aldursmunur á milli þeirra eða jafnvel ef einstaklingurinn er þekktur og virtur í samfélaginu. Valdaójafnvægið getur verið frá upphafi eða getur myndast með tímanum þar sem einstaklingurinn með ofbeldishegðunina gerir sig merkilegri og dregur úr samfélagslegri þátttöku maka eða einangrar hann til dæmis með að hvetja maka til að hætta í vinnu, hætta tala við ákveðna vini sem ögra sambandinu eða draga úr sjálfstrausti hans með niðurrifi. Einstaklingur með ofbeldishegðun gerir þetta til að styrkja eigin stöðu og um leið minnka þann félagslega stuðning sem hin aðilinn gæti þurft á að halda til þess að fá speglun um hvað gengur á í sambandinu.

Merki um að þú sért að glíma við áfallatengsl geta til dæmis verið:

  • Upplifir þig fasta/fastur/fast í sambandinu og/eða sérð enga leið út úr sambandinu
  • Líður eins og þú sért að „tipla á tánum“ í kringum einstaklinginn. Hefur áhyggjur af því að þú gætir gert/sagt eitthvað sem kveikir þráð hjá einstaklingum.
  • Makinn segir eða gerir hluti sem særa þig eða meiða en þú ferð ekki vegna hræðslu um að hann skaði sig.
  • Fólk í kringum þig telur að þú ættir að yfirgefa sambandið.
  • Þér er refsað eða notast er við fýlustjórnun fyrir að gera eitthvað sem einstaklingurinn telur vera rangt.
  • Fólk í kringum þig hefur áhyggjur af einhverju sem einstaklingurinn hefur sagt eða gert við þig en þú gerir lítið úr því.
  • Þegar þú reynir að slíta sambandinu gætir þú fundið fyrir ákveðnari löngun til þess að hitta einstaklinginn og sársaukin sem fylgir þessari löngun getur leitt til þess að þú leitar aftur í sambandið.

Fólk getur fundið fyrir mikilli skömm fyrir að finna ennþá fyrir tilfinningum til gerenda síns og gætu jafnvel fundið fyrir löngun til þess að hafa samband við hann eða upplifa spenning yfir símtali frá honum. Það er mikilvægt að vita að þessar tilfinningar eru eðlilegar og orsakast vegna margra flækju þátta sem voru í sambandinu. Það er eðlilegt að sakna og það er mikilvægt að gefa sér rými og tíma til þess að syrgja sambandið. Fyrir suma er þetta mikilvægt skref til þess að geta byrjað bataferlið. Það er allt í lagi að vera sorgmædd/ur/tt og líða illa yfir sambandsslitinu en það þýðir ekki að þú getur ekki komist yfir það. Eitt af fyrstu skrefunum er að fá hjálp hjá einhverjum sem skilur þig og getur skipt höfuð máli í því hvort þú festist aftur í ofbeldissambandinu.

Skref til þess að byrja bataferlið

  • Fá aðstoð og helst frá fagaðila sem notast við áfallamiðaða nálgun.
  • Syrgja. Gefðu þér rými til að syrgja sambandið eða þá von um að eðli sambandsins myndi breytast og þá merkingu sem þú barst til sambandsins.
  • Þegar þú ert komin á góðan stað í bataferlinu og þegar þú treystir þér til, getur hjálpað að skrifa um það. Með því að skrifa það niður getur það hjálpað þér til að meðtaka það sem gerðist og hvernig þér leið á þeim tíma. Það er enginn annar sem þarf að lesa þennan texta, þetta er fyrir þig.

Ef þú hefur áhuga á að lesa þig betur til um eðli ofbeldissambanda, ólíkar birtingarmyndir eða nánar um ofbeldishringinn er hægt að finna fræðsluefni á heimasíðu Kvennaathvarfsins, 112.is og inn á heimasíðu Bjarkarhlíðar.