Það situr í mér eitt kvöld þar sem ég var á skurðlæknavakt fyrir mörgum árum. Á vaktina var komið með starfsbróður minn sem var í alvarlegum sjálfsvígshugleiðingum. Sama hvað ég reyndi, þá komum við að lokuðum dyrum hjá geðdeildinni. Ef einhver trúir því að það sé til læknamafía, þá var hún ekki á vakt þessa nótt. Á endanum fór orkan í að reyna að fela eigin ekka og táraflóð, því mér fannst heilbrigðiskerfið, sem ég var partur af, geta gert betur. Góður skurðlæknir á vakt hughreysti óléttu buguðu mig, en það er aukaatriði – ekki vorum við að fara að skera burtu sjálfsvígshugsanirnar.

Það er líklega ein versta tilfinningin, að geta ekki hjálpað til þegar líf nærstaddra er í húfi. Tala ekki um ef um ræðir ástvin eða barn. Í mínu nánasta umhverfi eru fleiri en eitt og fleiri en tvö tilfelli þar sem lítil sem engin úrræði eru í boði. Fólk hrökklast heim með þann veika og finnst það ekki tekið alvarlega.

Hindrunarlaust aðgengi

Er virkilega ekki hægt að gera betur? Mættu á bráðamóttökuna með sprunginn botnlanga og þú ert strax settur í ferli og læknaður eins fljótt og hendur vinna. En mættu með veikan huga og þú verður allt eins sendur heim.

Alþjóðlegur forvarnadagur sjálfsvíga var haldinn fyrir rúmri viku. Heilbrigðisráðherra gaf vilyrði fyrir auknu fjármagni fyrir stöðu verkefnastjóra sjálfsvígsforvarna. Á vef Embættis landlæknis segir að það skipti miklu að grípa snemma einstaklinga sem líður illa. Tryggja þurfi því gott og hindrunarlaust aðgengi að þjónustu. Sem er gríðarlega mikilvægt því í flestum tilfellum er ákvörðunin um að enda eigið líf tekin í skyndi.

Eftirsjá

Á vefsíðu lýðheilsudeildar Harvard-háskóla er sagt frá rannsóknum á fólki sem var nærri því að látast eftir sjálfsvígstilraun. Um 75% létu til skarar skríða á innan við klukkutíma frá því þau tóku ákvörðun og allt að 40% innan einungis fimm mínútna.

Á sömu síðu kom einnig fram að flestir sem lifðu af voru með eftirsjá. Það vakti líka athygli mína að níu af hverjum tíu sem lifa af alvarlega sjálfsvígstilraun munu ekki falla fyrir eigin hendi í framtíðinni.

Núll sjálfsvíg

Á Íslandi eru fjögur númer sem hægt er að hringja í líði manni illa, en ekki veit ég hversu markvissa þjálfun fólkið á símanum hefur fengið.

Henry Ford heilbrigðisþjónustan í Bandaríkjunum opnaði árið 2001 símalíflínu sem kallast „Zero suicide“, sem er stöðugt verið að uppfæra eftir því sem þekking eykst. Starfsfólkið fær sérhæfða þjálfun þar sem virðing og samkennd eru í fyrirrúmi. Áhætta er metin og þau sem eru í mestri hættu fá samdægurs ítarlega geðskoðun ásamt meðferð. Hinir fá vísindalega þróaðar leiðbeiningar og símtal um hvernig gangi. Á níu ára tímabili fækkaði sjálfsvígstilfellum hjá þeim um 78%.

Djúpu sárin sem ekki sjást

Vísindamenn hafa lengi vitað að höfnun og vanlíðan rista djúp sár í sálina, sem sjást ekki með berum augum.

Það er samt mikilvægt að átta sig á að kvíði, leiði og reiði er stór partur af eðlilegu tilfinningalífi. Það er þegar hugurinn bugast undan þeim sem þarf að bregðast hratt við.

Við þurfum að byrja að sjá og taka eftir andlegum sársauka, líkt og líkamlegum. Því fagna ég að ákvörðum hefur verið tekin um að tryggja hindrunarlaust aðgengi, því það getur verið of seint að bíða fram á næsta dag.

Starfsbróðir minn fékk á endanum aðstoð og hefur notið velgengni í lífi og starfi allar götur síðan. Hann fékk annan séns.