Í minni sveit var aldrei talað um að elska eitt­hvað sem ekki dregur andann. Svo allt í einu held ég til fimm ára dvalar á Grikk­landi og þegar ég kem til baka er Bjartur litli frændi minn kominn til skjalanna og hann elskar ekki að­eins jarðar­berja­­sjeik og pylsu með öllu nema steiktum, heldur elskar hann líka að fara í sund og að veiða.

Ég varð því að læra að nota orð þetta upp á nýtt og taldi mig vera orðinn full­numa í þeim fræðum þegar ég sagði við sjálfan mig að ég elskaði fugla. Alla­vega stækkar hjartað um tvö númer þegar turn­­svalan svífur um svalirnar hjá mér með skræki sína og ekki verð ég verri þegar spör­fuglinn sest fyrir utan gluggann.

Það var ekki fyrr en ég fór að þrífa svalirnar að ég áttaði mig á því að ég skildi enn­þá ekki til hlítar orðið „að elska“. Það var nefni­lega engu líkara en öll sóða­skáld bæjarins hefðu hellt úr blek­byttum sínum á svalirnar svo sól­bekkur, veggir og gólf var út­atað. Þá kom mér til hugar að hætta að tæla til mín þennan fiðraða fé­lags­skap en fæla hann frekar frá með því að hengja upp mynd af sjálfum mér í sturtu. En þá gæti ég ekki með heilum hug sagst elska fugla, er það?

Nú er ég að stúdera orðið upp á nýtt og hallast helst að því að maður geti ekki með sanni sagst elska nokkurn skapaðan hlut nema maður sé til í að taka skítinn líka.