Þegar við keyptum íbúðina okkar ákváðum við að búa þar í svona fimm ár, þar er bara eitt svefnherbergi og þetta fylgir víst ákveðinni forskrift. Við ræddum það líka að næsta íbúð sem við kaupum verður til svona tíu ára. Þá verð ég 32 ára og Hófí, kærastan mín, þrítug, og þá eigum við það mikið í íbúðinni okkar að við ættum að geta stækkað við okkur og í þeirri stækkuðu mynd verðum við þangað til að ég verð 42 ára og Hófí fertug. Þá kaupum við kannski hús og í því húsi ætlum við að búa í tuttugu ár, fram á sjötugsaldurinn. Þá verða ungarnir trúlega flognir úr hreiðrinu og farnir að hvetja okkur til þess að minnka við okkur.

Þetta hús verður eflaust á tveimur hæðum, eða þannig hef ég alltaf séð það fyrir mér, og ég verð trúlega ónýtur í hnjánum eftir margra ára strit við uppistand og pistlaskrif. „Þú getur ekkert verið að klöngrast upp og niður þessar tröppur endalaust,“ segir miðjubarnið örugglega, en það verður þá lengi búið að vera forsvari þeirra systkina í samskiptum við okkur Hófí. „Já, ef það væri bara eitthvað álitlegt til sölu,“ svara ég og miðjubarnið dæsir, þetta höfum við sagt lengi og erum örugglega ekkert búin að vera að leita. Sjálfsagt nennum við bara ekki að taka til í bílskúrnum, sem þá verður hlaðinn áratugum af misheppnuðum hobbíum, ókláruðum smíðaverkefnum og drasli sem komst aldrei á kerruna þegar við fórum í Sorpu. Við djókum í krökkunum að þau þurfi að sjá um þennan bílskúr þegar við deyjum, að það verði arfurinn þeirra. Þetta fylgir víst ákveðinni forskrift.