Á næstu mánuðum hefst bygging á um 3.600 íbúðum á Ártúnshöfða og við Elliðaárvog. Gatnagerð er þegar hafin, en þetta tengist fyrstu tveimur áföngum uppbyggingar sem á endanum mun skila um 7.500 íbúðum á svæðinu fyrir um 20 þúsund manns, auk verslana, skóla og annarrar starfsemi. Borgarlína mun síðan liggja þvert í gegnum svæðið. Áformað er að byggja um 2.000 íbúðir á neðra svæðinu, sem í grófum dráttum liggur með fram Sævarhöfða að Bryggjuhverfi. Efra svæðið er síðan á hamrinum þar fyrir ofan. Pappírsvinnu er lokið vegna þessara verkefna, deiliskipulag hefur verið samþykkt og ekkert því til fyrirstöðu að hefjast handa. Mörg stærri fyrirtæki hafa þegar vikið af svæðinu og viðræður eru í gangi við önnur. Gamalgrónar bílasölur á höfðanum eru nú að víkja. Sama gildir um iðnaðarhúsnæði.

Þetta er gríðarleg uppbygging sem verður á afmörkuðu svæði sem á að ljúka á 10 árum. Það að byggja um 3.600 íbúðir á næstu árum, þar sem um 2.000 verða á svæði 2 (neðra svæðinu) og 1.570 á svæði 1 (hamrinum fyrir ofan) skiptir meginmáli þegar kemur að því að anna uppsafnaðri þörf eftir íbúðarhúsnæði í Reykjavík. Þarna eru menn í startholunum og í raun tilbúnir með skóflurnar. Undirbúningur þessara framkvæmda hófst fyrir alvöru með undirritun samstarfsyfirlýsingar fyrir fjórum árum. Mikill fjöldi sérfræðinga hefur komið að hönnun hverfisins, sem mun gjörbreyta ásýnd borgarinnar.

Það skýtur því skökku við að Sjálfstæðismenn í borginni skuli vilja leggja áherslu á Keldnaholtið, Úlfarsárdal og BSÍ-reit þegar kemur að því að byggja 3.000 nýjar íbúðir án tafar, eins og það er orðað. Er ekki nær að leggja áherslu á að flýta því sem þegar er verið að gera og komið lengra áleiðis?

Til viðbótar eru enn miklar framkvæmdir í Vogahverfinu, búið er að samþykkja deiliskipulag fyrir fyrsta áfanga í Skerjafirði, þar sem 700 nýjar íbúðir verða byggðar og þar stendur yfir hönnun gatna. Bygging íbúða hefst þar á næsta ári. Þá má ekki heldur gleyma Hlíðarendasvæðinu. Þar er gert ráð fyrir að byggðar verði 420-460 íbúðir til viðbótar. Framkvæmdir geta hafist í febrúar eða mars á næsta ári.

Skipulag borgarsvæðis er flókin framkvæmd og krefst tíma og nákvæmni þar sem horft er til fjölmargra þátta. Það er ekki hægt að töfra þúsundir íbúða upp úr hattinum með sérstakri flýtimeðferð, þó að stjórnmálamenn láti svo í aðdraganda kosninga.

Þrátt fyrir þessar jákvæðu fréttir þá þarf að bæta verulega í og Reykjavíkurborg hefur dregið lappirnar í lóðaúthlutunum. Lóðaskortur hefur leitt til mikillar hækkunar á íbúðaverði og aukið verðbólgu. Það að íbúðaverð á Íslandi hafi hækkað um 140% að nafnverði á árunum 2010 til 2021, sem er met í Evrópusambandinu og Evrópska efnahagssambandinu, segir sína sögu.

Þétting byggðar hefur ýmsa hagræðingu í för með sér. Sú þétting hefur hins vegar gengið út í öfgar á mörgum svæðum, t.d. á Vogasvæðinu, þar sem byggt er svo þétt að gestir veigra sér nánast við að fara inn á svæðið vegna slæmrar aðkomu. Til viðbótar hefur kerfisbundið verið unnið að því að þrengja götur borgarinnar og hamla þannig eðlilegri umferð. Þetta er ekki boðlegt árið 2021.