Mexíkóheimsmeistaramótið ‘70 varð sigurmarsering hins brasilíska Pelé, stórkostlegasta knattspyrnumanns allra tíma. Eins og Pétur postuli varð táknmynd kirkjunnar sem mótaði veröld sem beið, varð Pelé táknmynd fegurðar leiksins sem sameinar heiminn í dag. Misskilningur er að lýðræði bindi heiminn best saman – víða skortir það. En leikur leikjanna er spilaður með sömu reglum, ákefð, ástríðu og einingu um allan heim. Og þar er engin undantekning á.

Það er því eðlilegt að heimsmeistaramótið í Katar sæti gagnrýni. Mótið er heimsbyggðarinnar og þau gildi sem við mörg trúum á – jafnrétti, frelsi, virðing og réttindi sem við gerum kröfur um eru ekki virt í Katar. Og það voru vonbrigði að þau fyrirheit sem mótshaldarar gáfu fyrir mótið reyndust yfirgefin við komu gestanna. Inn í þetta fléttast ægileg spilling FIFA síðasta áratug.

En möguleikar knattspyrnunnar felast í fegurð augnablika sem bindur heiminn saman í aðdáun og ástríðu. Íþróttin getur verið og á að vera afl til framvindu frjálslyndis og frelsis heimsins alls. Ég er viss um að svöl golan sem fylgir gestagangi í Katar þessa dagana skili sér á endanum í betri heimi.

Og þar sem knattspyrna lýsir á heiminn þarf og á formaður KSÍ að vera á meðal.

Það þarf nefnilega að sýna stundinni biðlund snilldarinnar – rétt eins og síðasta töfrasending Pelé í úrslitaleiknum gegn Ítalíu. Þar sem hann beið, og beið, og renndi síðan boltanum til hliðar þar sem ókleifur varnarmúr Ítalíu stóð allt í einu með öll himinshlið opin. Mark!