Nýlega voru niðurstöður PISA birtar og samhliða því tillögur að aðgerðum. Við gleðjumst yfir árangri í stærðfræði og sjáum hvernig góð kennsla, aukin starfsþjálfun og gott námsefni, samkvæmt orðum sérfræðinga frá HÍ, er grunnur að góðum árangri. Við sjáum að læsi á náttúrufræði er í svipuðu horfi en árangur í lesskilningi veldur vonbrigðum. Læsi er lykill barna að þátttöku í samfélaginu og persónulegri velferð og því skiptir miklu máli að staldra við og ígrunda stöðu mála.

Þjóðarsáttmáli um læsi varð til á haustdögum ársins 2015 sem ákveðin aðgerð eftir niðurstöður PISA 2012. Þess ber að geta að nemendurnir sem tóku PISA 2018 voru í komnir í 9. bekk þegar verkefnið fór á fullt og því geta þessar niðurstöður PISA núna tæplega verið mælikvarði á árangur sáttmálans. Breyttar áherslur í menntamálum er langhlaup fremur en spretthlaup og það tekur tíma að sjá árangur breytinga. Það er samt mikilvægt að horfa gagnrýnið á stöðu mála og meta hvort við erum á réttri leið.

Með Þjóðarsáttmála um læsi voru aðilum falin ákveðin verkefni. Verkefnahópur um læsi, sem var m.a. skipaður fulltrúum frá KÍ, ráðuneytinu, sveitarfélögum, háskólasamfélaginu, kennurum, fulltrúum foreldra og fleirum, mótaði áherslur og lagði grunn að aðgerðum sem fóru í framkvæmd. Samkvæmt Þjóðarsáttmálanum var það verkefni Menntamálastofnunar að veita sveitarfélögum stuðning og ráðgjöf, láta skólum í té skimunarpróf, veita kennurum aðstoð vegna mælinga, búa til upplýsingagátt um læsi og efna til námsstefnu um læsi. Sveitarfélögin áttu að setja sér læsisstefnu, ákveða lágmarksviðmið, meta framfarir, beita snemmtækri íhlutun, styðja við nemendur af erlendum uppruna og nýta sérfræðiþjónustu sína til að efla læsi. Þá hefur Heimili og skóli haft árangursríka aðkomu að verkefninu en einnig hafa bókasöfn, RÚV, rithöfundar, starfsmenn háskóla, útgefendur, hópar nemenda, kennarar og fjöldi annarra aðila tekið þátt í framkvæmd sáttmálans.

Þrátt fyrir að Menntamálastofnun hafi verið ætlað frekar afmarkað hlutverk er snýr að skimunarprófum og mælingum þá hefur verið lögð skýr áhersla á að nýta fjármuni verkefnisins í fjölbreytt verkefni og samstarf um eflingu læsis. Veitt hefur verið ráðgjöf og stuðningur til hvers einasta sveitarfélags, haldnir fjölmargir fræðslufundir með starfsmönnum sveitarfélaga, kennurum, foreldrum og fleiri. Farið var í samstarf við barnabókahöfunda um heimsóknir í skóla, sérstaklega í dreifðari byggðum, til að hvetja nemendur og skóla til dáða og auka áherslu á ritun. Fjármunum var varið í samstarf við RÚV til að framleiða áhugahvetjandi efni, Söguverkefnið, Risastórar smásögur, efni tengt stafainnlögn og fleira. Sett voru í gang starfsþróunarverkefni með skólum, búinn til ritunarvefur og hvatningarefni í skapandi skrifum, allt efni sem hefur fengið góðar móttökur hjá skólasamfélaginu. Öllum leikskólum landsins var færður námshvetjandi efniviður, vinnustofur haldnar og ráðgjöf veitt vegna HLJÓM-2 og gefið út námsefni tengt eflingu málþroska og lesskilnings. Haldnar hafa verið ráðstefnur og málþing með ýmsum aðilum og enn fremur veittur fjárstyrkur vegna slíkra funda, sem hafa þá beint snúið að eflingu íslenskunnar og læsis. Útbúin hafa verið skimunarpróf, lesskilningspróf, lesfimipróf, rafrænn gagnagrunnur og fleiri slík valkvæð verkfæri til að styðja við starf kennara og skóla en matstækin stuðla að betri greiningu á stöðu barna til að bregðast við á faglegan hátt. Sveitarfélögum var veittur stuðningur við læsisstefnugerð, aðgerðaáætlanir og aðstoð vegna innleiðingar á snemmtækri íhlutun á leikskólastiginu. Búið hefur verið til íhlutunarefni, kynntar áhugahvetjandi aðferðir og samstarf haft um rannsóknir.

Við höfum líka verið beinskeytt og gert kröfur á okkur sjálf og aðra til að standa sig betur, t.d. með því að auka útgáfu fjölbreyttra bóka, hvetja til faglegs lærdómssamfélags, kalla eftir meiri rannsóknum, skrifa greinar og fleira. Upplýsingar um verkefni Þjóðarsáttmálans, framvinduskýrslur og fleira má sjá heimasíðu Menntamálastofnunar (sjá: Þjóðarsáttmáli um læsi).

Mat á árangri af starfinu hefur stöðugt verið í gangi síðustu þrjú ár og þær niðurstöður gefa okkur skýrt til kynna að verkþáttum vindur vel fram eða er lokið. Sveitarfélög hafa verið að meta sinn árangur í samræmi við Þjóðarsáttmálann en það er auðvitað mismunandi hversu vel þeim hefur gengið með sinn hluta sáttmálans.

Á þeim árum sem liðin eru frá því að Þjóðarsáttmálinn var gerður hefur ýmislegt áunnist og skýrt að margir skólar, kennarar, foreldrar, bókasöfn, rithöfundar, útgefendur og fleiri hafa verið virkir í því að ýta undir áhuga barna á lestri og aðra grunnþætti lestrarfærni. Mikilvægt er að nýta niðurstöður á lesskilningshluta PISA 2018 til að gera enn betur. Þörf er á markvissari starfsþróun kennara, styðja þarf betur við málörvun og íhlutun hjá yngri börnum, tryggja þarf að allir kennaranemar fái grunnmenntun í lestrarfræðum og huga þarf betur að kennslu og vinnu með námstengdan orðaforða og hugtakaskilning á mið- og unglingastigi. Aðstæður barna hafa verið að breytast mikið og það þarf áfram að styðja börn og foreldra með öfluga lestrarmenningu.