Krafan um aukin ríkisútgjöld er stöðug. Sveitarfélögin, með Reykjavíkurborg í broddi fylkingar, kalla meðal annars eftir hundrað milljörðum frá ríkissjóði og Seðlabankanum – í formi styrkja og lána á niðurgreiddum vöxtum – og flestar hugmyndir um hvernig megi leita leiða til hagræðingar í opinberum rekstri mæta mikilli mótspyrnu. Þingmaður VG afgreiddi þannig í vikunni nýútgefið rit Viðskiptaráðs, þar sem settar eru fram hófsamar tillögur um hvernig megi forgangsraða í ríkisfjármálum til stuðnings verðmætasköpun og nýta fjármagn hins opinbera betur, sem „úrelta hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar [...] frá því fyrir hrun.“ Ekki er að sjá að margir hafi áhyggjur af því hvaða áhrif þúsund milljarða skuldsetning ríkissjóðs á komandi árum, sem þarf að fjármagna með lántökum á markaði, kunni að hafa á hagvaxtarhorfur og vaxtabyrði skattgreiðenda.

Enginn er að tala fyrir blóðugum niðurskurði nú þegar við stöndum frammi fyrir versta efnahagsáfalli í hundrað ár. Ríkisstjórnir og alþjóðastofnanir, meðal annars AGS og OECD, hafa flestar dregið þann lærdóm eftir fjármálakreppuna 2008 að rétta leiðin í viðreisn hagkerfa sé ekki að ráðast í harkalegar aðhaldsaðgerðir – hækkun skatta og minni opinber útgjöld – heldur að örva hagvöxt með því að ýta undir eftirspurn og auka opinberar fjárfestingar. Sömu leið á að fara hérlendis, eins og fjármálaáætlun stjórnvalda ber merki um. Útlit er fyrir að fjárlagahallinn verði talsvert meiri en í nágrannaríkjum, enda hefur ríkissjóður orðið fyrir miklu tekjutapi samhliða gríðarlegu og varanlegu framleiðslutapi í hagkerfinu.

Ólíkt því sem margir halda er úthald ríkissjóðs nefnilega ekki takmarkalaust og skuldasöfnun hans verður að linna eins fljótt og auðið er.

Ríkið mun því augljóslega – og um það deila fáir – gegna lykilhlutverki við að milda höggið fyrir fólk og fyrirtæki og um leið skapa forsendur fyrir viðspyrnunni. Það skiptir hins vegar máli í hvað fjármunirnir fara. Mikill og viðvarandi hallarekstur, vegna enn meiri rekstrarútgjalda til handa opinberum stofnunum, er ósjálfbær og mun ekki skapa þann hagvöxt sem nauðsynlegur verður svo ríkissjóður geti staðið undir aukinni skuldsetningu. Annað gildir um opinberar fjárfestingar en þær þurfa engu að síður, rétt eins og kom fram í máli bankastjóra Englandsbanka í liðinni viku, að fara í verkefni sem skila viðunandi arðsemi og búa þannig í haginn fyrir hagvöxt framtíðarinnar – að öðrum kosti munum við fá reikninginn til baka í formi hærri vaxta, niðurskurðar og skattahækkana. Ólíkt því sem margir halda er úthald ríkissjóðs nefnilega ekki takmarkalaust og skuldasöfnun hans verður að linna eins fljótt og auðið er.

Þróunin á skuldabréfamarkaði ætti að vera flestum tilefni til að staldra við. Áhyggjur af því hvernig fjármagna eigi gríðarlegan hallarekstur ríkissjóðs og sveitarfélaga, ásamt þrýstingi stjórnmálaafla á enn meiri útgjöld án þess að nokkur ráðdeild komi á móti, hefur valdið því að langtímavextir á markaði – grunnur fyrir vaxtakjör heimila og fyrirtækja – hafa snarhækkað á örfáum vikum og eru komnir á sama stað og í janúar. Sú þróun er grafalvarleg og skýtur skökku við, enda hafa stýrivextir Seðlabankans á sama tíma lækkað úr 3 prósentum í 1 prósent. Árlegur vaxtakostnaður ríkisins miðað við núverandi fjárlagafrumvarp stefnir af þeim sökum í að verða yfir 2 prósent af landsframleiðslu, eða um 60 milljarðar, sem er á pari við Grikkland. Það er óásættanlegt og við því þurfa stjórnvöld að bregðast.