Nú er að­eins einn mánuður í að sól verði hæst á lofti og dag­ljóst að nóttu sem degi. Yfir árs­tíðinni er rómantískur blær. Tré og runnar bruma og blóm spretta. Lík­lega er sumrinu, birtunni og ylnum fagnað meir nú en áður eftir ó­hemju grimman og harðan vetur. Að ó­gleymdri kórónu­veirunni sem hefur gert allri heims­byggðinni and­styggi­legan ó­leik og hefur lagt efna­hags­kerfi á hliðina svo sums staðar er varla um að binda.

Ís­lendingar voru eins vel í sveit settir og hugsast gat til að taka á móti vánni. Efna­hagur með á­gætum og fag­leg þekking og reynsla til staðar sem nýta mátti til að skipu­leggja við­brögð. Samt er einka­rekstur varla nema svipur hjá sjón eftir storminn og fyrir­tæki bæði stór og smá að glíma við af­leiðingar tekju­leysis um margra vikna skeið. Ein­hver þeirra munu tapa fjörinu.

Opin­berar að­gerðir hafa vissu­lega létt undir og gert björgunar­starf mögu­legt, en sumt af því var fremur til bölvunar en blessunar. Að ein­hverju marki var við því að búast að ráð­stafanir sem gerðar voru í auga stormsins myndu ekki allar eldast vel. Hluta­bóta­leiðin reyndist mein­gölluð og ó­skýr og skil­málum hennar var breytt eftir á. Það er ekki góð að­ferð, sem ef til vill hefði mátt komast hjá ef betur hefði verið staðið að undir­búningi og fleirum hleypt að borðinu. Þá er ekki að sjá að mikill asi sé á veitingu brúar­lána eða stuðnings­lána. Og ýmsar að­gerðir sem kynntar hafa verið og taldar bráð­nauð­syn­legar hafa ekki komist til fram­kvæmda. Það er engin hjálp í ó­út­skýrðu gaufi á veitingu þessara lána, styrkjum til einka­rekinna fjöl­miðla og fleiru. Búast mátti við að þær að­gerðir hefðu ekki ratað í glæru­kynningu stjórn­valda um bráða­að­gerðir, nema þau treystu sér til að hrinda þeim í fram­kvæmd.

Allt orkar svo sem tví­mælis þá gert er. Þannig er einnig um sótt­varna­að­gerðir heil­brigðis­yfir­valda og öruggt að um­ræðan mun snúast um deilur um hvernig þeim var komið á og svo þeim af­létt. Ís­lendingar eru jú sumpart þrætu­gjarnt fólk, ekki síst þegar rætt er um at­vik og við­brögð í for­tíð.

En nú er hækkandi sól og ýmis teikn á lofti um að hjólin séu tekin að snúast á ný. Ný­lega sagði í Frétta­blaðinu frá því að bókanir ferða­manna væru teknar að berast á ný að utan. Þó það sé ekki í stórum stíl er mjór mikils vísir.

Það er þá að vona að hingað fáist flug­far fyrir þá sem hingað vilja koma og héðan fara. En yfir­standandi, hat­römm kjara­deila gæti sett strik í þann reikn­ing. Ekki er annað að skilja en að for­senda þess að Icelandair lifi þetta allt af, og nýtt fé fáist í reksturinn, sé að samningar á grund­velli til­boðs fé­lagsins takist.

Það er hins vegar sér­kenni­legt að á­steytingar­steinninn í deilunni sé ekki hvað er boðið, heldur hvort for­stjórinn sendir hluta starfs­manna fé­lagsins tölvu­póst. Það er hreinasti fyrir­sláttur að það sé eitt­hvert úr­slita­at­riði og upp­hrópanir og usli þess vegna er ó­þarfur og varla til annars en að herða hnútinn.

Leysa þarf deiluna og það er á á­byrgð beggja.