Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, lýsti því í Fréttablaðinu miðvikudaginn 6. október að ólíklegt væri að Ísland næði að standa við skuldbindingar sínar samkvæmt Parísarsamningnum um aðgerðir gegn útblæstri gróðurhúsalofttegunda.

Aðildarríki Parísarsamningsins eru 194 talsins og hafa þau skuldbundið sig til að halda hækkun hitastigs jarðar vel undir 2°C miðað við meðalhitastig jarðar fyrir iðnvæðingu og helst undir 1,5°C. Þeim ber skylda til að ákvarða framlög til að ná þessu markmiði samningsins og endurskoða framlögin reglulega með hliðsjón af því hvernig hefur gengið að draga úr loftmengun. Ísland hefur gert samning við Evrópusambandið (ESB) um línulegan samdrátt til ársins 2030 en sá samningur kveður á um sameiginlega ábyrgð Íslands, Noregs og aðildarríkja ESB á samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda til að mæta kröfum Parísarsamningsins. Rætt hefur verið um mikilvægi þess að lögfesta markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda hér innanlands en ábyrgð íslenska ríkisins að þjóðarétti er ekki háð lögfestingu í landsrétt. Það getur þó reynst erfitt að láta ríki sæta ábyrgð því oft skortir dómstóla lögsögu til að fjalla um brotin.

Í Parísarsamningnum og samningi Íslands við ESB er lögð áhersla á upplýsingagjöf og aðstoð við úrbætur. Úrræði vegna vanefnda eru af skornum skammti. Þar til gerð nefnd getur tekið mál til umfjöllunar skv. Parísarsamningnum, t.d. ef losun aðildarríkis er ekki í samræmi við fyrirhugað framlag og ef ljóst má telja að framlagið dugir engan veginn til að ríkið geti dregið eins mikið úr loftmengun og það hefur lofað að gera. Samningurinn kveður þó ekki á um skyldu til að leysa úr ágreiningi fyrir dómstólum því aðildarríkin gátu ekki sammælst um að gefa færi á málshöfðunum. Þetta er ákveðinn annmarki á Parísarsamningnum því erfitt er að knýja á um efndir án bindandi dómsúrlausna. Hins vegar má færa rök fyrir því að ríki geti höfðað mál, t.d. á hendur Íslandi, vegna brota á Parísarsamningnum ef brotið leiðir til mengunar í hafi. Þetta kemur ekki fram í Parísarsamningnum en Ísland er meðal 168 aðila hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna og ber, skv. honum, skylda til að fara fyrir dómstóla ef ekki tekst að leysa úr ágreiningi með öðrum friðsamlegum hætti. Dómstólar hafa lögsögu til að leysa úr deilum er varða túlkun eða beitingu hafréttarsamningsins og ríki velja hvort farið er til Alþjóðadómstólsins í Haag, Hafréttardómsins í Hamborg eða gerðardóms. Þessi víðtæka lögsaga er óvenjuleg í þjóðarétti og gríðarlega mikilvæg en hún nær ekki til skuldbindinga um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda nema að því marki sem þær falla undir hafréttarsamninginn.

Aðildarríkjum hafréttarsamningsins ber meðal annars skylda til að koma í veg fyrir, draga úr og hafa eftirlit með mengun hafsins. Þau skulu einnig setja lög og reglur til að koma í veg fyrir, draga úr og hafa eftirlit með mengun hafsins frá landstöðvum og úr andrúmsloftinu með hliðsjón af reglum, stöðlum og tilmælum um venjur og starfshætti sem samþykkt hafa verið á alþjóðavettvangi. Óræð og opin ákvæði hafréttarsamningsins hafa verið túlkuð með vísun til annarra milliríkjasamninga um tengt efni og einn fremsti fræðimaður heims á sviði alþjóðlegs umhverfis- og hafréttar, prófessor Alan Boyle, hefur fært fyrir því rök að fyrrnefnd ákvæði hafréttarsamningsins megi túlka með hliðsjón af Parísarsamningnum og skuldbindingum ríkja samkvæmt honum. Það þýðir að losun gróðurhúsalofttegunda, sem hefur afleiðingar í hafi, svo sem hækkandi sjávarmál og súrnun sjávar, getur leitt til þess að ríki teljist brotleg við hafréttarsamninginn ef losunin er ekki í samræmi við skuldbindingar ríkja skv. Parísarsamningnum. Tenging Parísarsamningsins við hafréttarsamninginn þýðir að ríki sem uppfylla ekki skuldbindingar um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda þurfa ekki eingöngu að óttast ávítur og vægar refsiaðgerðir. Þau kunna einnig að þurfa að sæta málshöfðunum og gætu þá fengið á sig dóma sem skylda þau til að greiða skaðabætur.

Þó að öllum megi ljóst vera að Parísarsamningurinn er bindandi milliríkjasamningur þá hafa dómstólar ekki lögsögu til að fjalla um hugsanleg brot á honum nema ríki semji sérstaklega um það eða brot á samningnum heyri undir reglur hafréttarsamningsins um skyldubundna málsmeðferð. Vonir standa til að Alþjóðadómstóllinn skýri réttarstöðuna hvað þetta varðar en lýðveldið Vanúatú tók nýlega fyrstu skref í átt að því að afla ráðgefandi álits dómstólsins um ábyrgð þróaðra ríkja á loftslagsbreytingum. Álitið mun vonandi varpa ljósi á það hvenær ríki teljast brotleg við Parísarsamninginn og hvort í einhverjum tilvikum megi stefna ríkjum á grundvelli hafréttarsamningsins og þá um leið hvort það geti orðið grundvöllur skaðabótaskyldu. Meðan þetta liggur ekki ljóst fyrir er vissara að hafa vaðið fyrir neðan sig og standa við gefin fyrirheit.

Höfundur er nýdoktor við lagadeild Háskólans í Reykjavík.