Bankarnir þurfa að líta sér nær þegar kemur að samfélagsábyrgð. Þeir ættu að hlúa betur að almennum fjárfestum í Kauphöllinni.

Enginn banki birtir verðmöt opinberlega þrátt fyrir að MiFID II tilskipun Evrópusambandsins heimili þeim að gefa landsmönnum greiningar á smærri fyrirtæki. Öll fyrirtækin í Kauphöllinni flokkast sem smá nema þrjú.

Tilskipunin gerir annars þá kröfu til banka að þeir rukki viðskiptavini fyrir greiningar en láti þær ekki fylgja með í kaupunum þegar þóknun er greidd í verðbréfaviðskiptum eins og lengi hafði tíðkast.

Flestir landsmenn njóta góðs af því að styðjast við greiningar þegar fjárfest er í fyrirtækjum. Það er mikilvægt að greiningarnar komi úr nokkrum áttum til að efla skoðanaskipti og dýpka umræðu um fjárfestingar. Það væri slæmt ef flestir landsmenn treystu á einn greinanda.

Bankarnir stæra sig af því að sýna samfélagsábyrgð. Nú þegar almenningur fjárfestir sem aldrei fyrr í hlutabréfum í ljósi lágs vaxtastigs telst það til samfélagslegrar ábyrgðar að vinna greiningar og veita þannig innsýn í markaðinn.

Sparnaður almennings er að miklu leyti í lífeyrissjóðum. Það hefur verið ákall um að leyfa fólki að ráðstafa sérleignarlífeyrissparnaði sínum eftir hentugleika, hvort sem það kýs að fjárfesta sjálft eða í verðbréfasjóðum. Slíkt hefði ýmsa kosti í för með sér. Til að sú lagabreyting verði að veruleika er mikilvægt að auka upplýsingagjöf til fjárfesta.