Abilene mótsögnin fær því miður ekki nægilega mikla umfjöllun í samfélaginu og vil ég endilega leggja mitt á vogarskálarnar í þeirri von að fólk verði vakandi fyrir aðstæðum þar sem mótsögnin á við og geti vonandi veitt henni mótvægi.

Í hverju felst mótsögnin?

Mótsögninni má lýsa á þann hátt að fjölskylda er að spila saman og einn í fjölskyldunni stingur upp á að þau skreppi til bæjarins Abilene (sem er í nokkurri fjarlægð). Hin í fjölskyldunni samþykkja tillöguna og þau leggja af stað. Eftir langa og erfiða keyrslu stoppa þau á veitingastað í Abilene og var maturinn þar jafnslæmur og keyrslan. Þau fara síðan aftur til baka og eru öll uppgefin eftir ferðina.

Þrátt fyrir það spyr eitt þeirra hin með leiðandi hætti hvort þeim þyki ferðin ekki hafa verið frábær. Eitt þeirra svaraði að það hefði ekki notið ferðarinnar og hefði eingöngu farið í hana til að hin gætu notið ferðarinnar. Annað þeirra svaraði að það hefði eingöngu farið til að auka ánægju hinna, enda þyrfti það að vera brjálað til að fara út í þessum hita. Sá sem stakk upp á ferðinni sagðist svo eingöngu hafa gert það því hann taldi að hinum væri að leiðast. Hópurinn fór því í ferð sem engan innan hans langaði í raun að fara.

Orsök og afleiðingar hennar

Þessi mótsögn er dæmi um meðvirkni í framkvæmd þar sem hver og einn í hópnum hélt að sitt framlag yrði til þess að hópurinn sem heild myndi hagnast, hvort sem það var hugmyndin sjálf eða undirtektir hennar. Raunin varð síðan sú að allur hópurinn tapaði á því að fara í þessa ferð, enda var hvert og eitt þeirra alveg sátt við það að vera áfram heima og lysti ekki mjög að fara.

Orsökina má líklega rekja til þess að fólk getur verið tregt til að tjá skoðanir sem það telur að hópurinn í heild taki illa, og hafi þar af leiðandi neikvæð áhrif á samfélagslega stöðu þess. Fólk er oft hrætt við að vera einangrað frá hópnum með því að vera eina manneskjan með tiltekna skoðun og þá gætu aðstæðurnar leitt til ferðar til Abilene í óþökk allra í hópnum.

Mótsögnin þarf ekki endilega að vera takmörkuð við hugmyndina sjálfa, heldur gæti hún einnig náð til útfærslu hennar. Fólkið gæti alveg verið raunverulega sammála um að fara til Abilene, en gæti lent í þessari mótsögn um ferðamáta, ferðatíma, val á veitingastað, eða hvað eina annað er snýr að ferðinni. Hver sem stakk upp á ferðinni til Abilene gæti lent í því að útfærslan þróist á þann veg að viðkomandi hefði aldrei stungið upp á ferðinni, ef vitað hefði verið að ferðin yrði með þeim hætti sem var ákveðinn, og hin í fjölskyldunni haldi að þau séu að gera það sem þau telja vera best fyrir heildina, með því að útfæra ferðina með þeim hætti.

Hvað er hægt að gera?

Til að sporna gegn aðstæðum eins og þessum, hvort sem það eru ferðir til fjarlægra staða eða önnur verkefni, er mikilvægt að fólk sé duglegt við að tjá efasemdir sínar ef það telur tillöguna ekki stand­ast skoðun og eftir atvikum tjái hreina andstöðu. Umhverfið þarf auðvitað að vera slíkt að fólk geti óhrætt tjáð efasemdir og andstöðu án þess að það eitt sé litið hornauga. Stundum þarf bara ein manneskja að tjá andstöðu sína til þess að fleiri í hópnum þori það líka. Andstaðan þarf ekki endilega að leiða til þess að hugmyndin sé slegin út af borðinu, en gæti alveg leitt til betrumbóta, sem gerir hana ásættanlegri í framkvæmd fyrir hvern og einn, eða jafnvel æðislega fyrir þau öll.

Mótsögnin á ekki einvörðungu við persónulega lífið, enda getur þetta einnig gerst á öðrum vettvangi, svo sem á vinnufundum, þjóðþingum, stjórnarfundum og aðalfundum. Í tilvikum þegar einhverjum er falið að framkvæma ákvörðunina gæti það verið einstaklingur sem var svo ekki sérstaklega fylgjandi ákvörðuninni, sem gæti eftir atvikum leitt til slapprar framkvæmdar eða jafnvel sýndarframkvæmdar.

Mögulegar leiðir til að minnka líkurnar á að slíkt eigi sér stað eru ýmist að setja umhverfið upp þannig að fólki sé hvorki refsað samfélagslega né stöðulega fyrir andmæli. Fólkið þarf einnig að gera sér fulla grein fyrir því, og mögulega með þeim hætti að hvetja eða skylda það til að koma með sjónarmið á móti, jafnvel þótt þau virðist ómerkileg við fyrstu sýn. Enn önnur leið væri að bjóða hverjum og einum í hópnum að leggja fram andstæð sjónarmið nafnlaust og þau yrðu svo borin upp fyrir hópinn í heild þegar ákvörðun væri tekin, og fólk fengi þar tækifæri til að taka undir efasemdir annarra. Útfærslan yrði auðvitað mismunandi eftir aðstæðum.

Vitneskjan er eingöngu helmingur baráttunnar, eins og G.I. Joe myndi segja, og vona ég að þessi grein hafi gegnt ágætu hlutverki í þessum helmingi baráttunnar gegn meðvirkni.