Óhætt er að segja að staða bólusetninga sé misjöfn á milli ríkja heims. Eins og við mátti búast hafa ríkari þjóðir heims náð mun meiri útbreiðslu í bólusetningum en hinar fátækari.

Ísrael trónir á toppi bólusettra en þar höfðu á laugardag tæplega 63 prósent verið bólusett. Bandaríkin koma þar næst á eftir með um 44 prósent og Barein litlu minna.

Fréttir hafa verið fluttar af afleitri stöðu mála í Indlandi þar sem dögum saman hefur hvert metið verið slegið í fjölda smita og dauðsfalla. Bjargarleysið virðist þar í landi algert, skortur á lækningatækjum og aðstöðu fullkominn. Aflögufærar þjóðir brugðust seint við en hjálp kvað nú vera tekin að berast. Þar hafa rúmlega 9 prósent verið bólusett.

Búast má við að aðrar og enn fátækari þjóðir muni lenda í sambærilegum hremmingum áður en tekst að ráða niðurlögum heimsfaraldursins.

Hér á Íslandi ganga bólusetningar vel nú í seinni tíð. Þúsundir eru bólusettar daglega og gert ráð fyrir að 25 þúsund manns fái bóluefni í þessari viku. Standi áform bóluefnaframleiðenda um afhendingu styttist mjög í að hægt verði að aflétta takmörkunum daglegs lífs innanlands. Samkvæmt áætlun stjórnvalda verður það gert síðari hluta júní og þangað til stigin ákveðin skref í þá átt. En þar með er björninn ekki unninn. Fjöldi atvinnugreina á í rekstrarerfiðleikum og tugþúsundir eru án atvinnu. Gera má ráð fyrir að afleiðingar þessa verði langvarandi.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur bent á að vægi ferðaþjónustunnar hafi verið of mikið í íslensku efnahagslífi áður en heimsfaraldurinn skall á. Þekking og færni vinnuafls hér á landi sé mikil en vannýtt þar sem nýting þess og verðmætasköpun í upplýsingatækni og hátækni sé ekki í réttu hlutfalli við getu og færni vinnuaflsins, er haft eftir yfirmanni sendinefndar sjóðsins. Nú þegar hilli undir endalok faraldursins þurfi að byggja ferðaþjónustuna upp samhliða öðrum atvinnugreinum.

Faraldurinn hefur kennt okkur margt. Eggin verða að vera í fleiri körfum. Stjórnvöld verða að fara fyrir aukinni fjölbreytni í atvinnulífinu.

Leiða má að því rök að uppgangur ferðaþjónustunnar hér hafi verið of hraður því þeir innviðir sem fyrir voru hafi ekki verið nægjanlega sterkir til að taka á móti þeim fjölda sem hingað leitaði. Viðkvæm náttúra á fjölförnum stöðum var víða farin að láta á sjá og þjóðvegir um landið ekki gerðir til að taka á móti þeirri umferð sem á þá leitaði svo dæmi séu tekin.

Og nú er ferðamannasumarið 2021 hafið. Hingað hafa undanfarna daga streymt bólusettir ferðamenn frá Bandaríkjunum og ekki vafi á að ferðamenn frá öðrum löndum sem svipað er ástatt um muni bráðlega leggja leið sína hingað. Flugferðum til og frá landinu fjölgar. Gististaðir um landið munu verða opnaðir á ný, bílaleigubílar settir aftur á númer, dúkar breiddir á borð á veitingahúsum landsins, ferðaþjónustan snýst í gang og fólk tínist af atvinnuleysisskrá.

Það vorar á Íslandi á næstunni.