S íðustu daga höfum við upplifað vanmátt og sorg. Ítrekuð áföll tengd veðráttu landsins hafa dunið á þar sem ekki síst börn og ungmenni líða þjáningar svo að sker í hjartað. Gamall sársauki tengdur snjóflóðum á Súðavík og Flateyri bærir á sér og öll sem eiga um sárt að binda vegna áfalla þjást í hljóði.

Reykjavík síðdegis ræddi um helgina við Hafstein Númason sem missti þrjú börn í snjóflóðinu í Súðavík fyrir 25 árum. Það var fallegt viðtal. Þáttarstjórinn spurði Hafstein hvort hann hefði fundið fyrir miklum stuðningi í áfallinu. Já, það hélt okkur algerlega á floti fyrst, svaraði Hafsteinn. Þegar allir hugsa svona sterkt til manns – það virkar. Maður lifir á því enn þá. Maður finnur enn þá þann samhug sem maður fær.

Þarna talar maður sem er kunnugur þjáningum en kann líka skil á mannlegri reisn. Allt fólk sem lifað hefur áföll og þjáningar veit að mannleg reisn er aldrei einkaafrek. Viðbrögðin sem við höfum séð í byggðarlögum fyrir vestan og í Hafnarfirði og einnig hjá viðbragðsaðilum á landsvísu auk fjölmiðla og yfirvalda eru skýr merki um heilbrigði og mannlega reisn. Hugsið ykkur alla þá einstaklinga, allt frá aðvífandi vegfarendum yfir í þyrlusveitir, sem umliðnar vikur hafa brugðist við á neyðarstundu og gert sitt allra besta í þágu samferðafólks. Hugsið ykkur allar þær bænir sem stigið hafa til himins þessa daga og alla þá stífu samráðsfundi sem haldnir hafa verið á ólíkum stöðum. Ekkert linar mannlegar þjáningar betur en mannleg snerting og samúð. Hafsteinn Númason ber vitni um að það virkar. Lokaorð hans voru: Við þurfum að standa meira saman, ekki bara þegar slysin verða. Við þurfum að standa meira saman bara í lífinu.