Það er gott til þess að vita að íslenskan eigi öfluga stuðningsmenn sem standa vörð um hana og vara við af bökun á henni. Í þessum hópi er Vala Hafstað sem nýlega skrifaði prýðisgóða, bráðskemmtilega og snarpa grein í Fréttablaðið um afbökun tungumálsins. Meðal annars tók hún dæmi um orðið „maður“ sem margir forðast nú um stundir að taka sér í munn. Orðið er nefnilega karlkyns og í samtímanum þykir það verulega afleitt, reyndar svo mjög að talin er rík ástæða til að varast notkun þess.

Dæmi um þetta sjást víða. Þannig er um hver áramót ekki lengur valinn „maður ársins“ heldur „manneskja ársins“. Einnig er reynt með öllum ráðum að tala um „fólk“ eða „aðila“ til að neyðast ekki að segja hið vonda orð „maður“. Þannig þykir betra, eins og Vala nefnir í grein sinni, að segja „hestafólk“ í staðinn fyrir „hestamenn“, lögreglufólk í staðinn fyrir lögreglumenn og svo framvegis.

Vala er ekki ein um að hafa vakið athygli á hræðslunni við orðið „maður“. Það gerði Baldur Hafstað einnig í nýlegri grein í Morgunblaðinu með yfirskriftinni Afkynjun íslenskunnar. Þar lýsti hann því meðal annars þegar hann heyrði fréttamann RÚV hiksta á orðinu „mannabein“ og flýta sér að segja í staðinn „manneskjubein“.

Úthýsing orðsins maður gengur samt ekki nægilega skilvirkt fyrir sig. Einhverjir virðast ekki ætla að láta sér segjast. Sem dæmi má nefna að á sjónvarpsstöðinni Hringbraut hefur árum saman verið viðtalsþáttur sem ber titilinn Mannamál og þar er rætt við konur og karla. Umsjónarmaður þáttarins hefur enn sem komið er þverskallast við kalli tímans og neitar að breyta heitinu og kalla þáttinn Aðilamál eða jafnvel Manneskjumál.

Ekki er ýkja langt síðan lögð var áhersla á að konur væru líka menn. Innan Rauðsokkahreyfingarinnar var þessu fína slagorði haldið mjög á lofti. Eins og frægt er orðið sagði Vigdís Finnbogadóttir, þegar hún bauð sig fram til forseta Íslands að ekki ætti að kjósa hana vegna þess að hún væri kona heldur vegna þess að hún væri maður. Nú er hins vegar ríkjandi hneigð í þá átt að líta svo á að konur séu ekki menn. Þær konur sem telja sig hins vegar enn til manna hljóta að hafa fullan rétt til þess. Sú sem þetta skrifar titlar sig til dæmis sem blaðamann og ætlar ekki að gefa þann titil eftir baráttulaust enda er orðið blaðakona ekki eins hljómfagurt . Hún segir einnig oft: „Manni finnst nú ... maður ætti að ...“, meðan kunningjakona hennar ein, sem því miður er orðin fórnarlamb málfarsrétttrúnaðarins, passar sig vandlega á að segja: „Konu finnst nú ... kona ætti að ...“.

Eflaust er erfitt að snúa við þeirri þróun sem hér er lýst. Uppgjöf er samt ekki í boði, þótt barist sé við ofurefli. Grípa má til ýmissa ráða, eins og þess að sýna þann manndóm að standa á sínu og láta ekki haggast. Meðan þeirri sem þetta skrifar endist líf ætlar hún allavega að halda áfram að vera maður og vera stolt af því – enda er það venjulega hið prýðilegasta hlutskipti.