Í síðustu viku mælti dómsmálaráðherra fyrir róttækum breytingum á lögum um mannanöfn. Verði frumvarpið samþykkt mun hin oft umdeilda mannanafnanefnd heyra sögunni til.

Með breytingunum mun frelsi við nafngjöf aukast til muna en áfram munu þó gilda ákveðnar takmarkanir til að koma í veg fyrir að börnum séu gefin nöfn sem mögulega gætu orðið þeim til ama eða séu óviðeigandi á einhvern hátt.

Þegar tekist er á um lög um mannanöfn eru það helst tvö sjónarmið sem togast á: Vernd íslenskrar tungu og menningararfs og frelsi einstaklingsins til þess að bera það nafn sem hann kýs.

Flestum þykir mikilvægt að standa vörð um íslenska tungu sem á undir högg að sækja en ég efast stórlega um að rétta leiðin til þess sé með boðum og bönnum. Ég er heldur ekki viss um að aukið frelsi er varðar það hvað við heitum hafi slæm áhrif á okkar ástkæra ylhýra. Leiða má líkur að því að einhver erlend nöfn muni bætast við og fleiri ættarnöfn verði tekin upp, en mun það raunverulega hafa slæm áhrif á tungumálið þegar mannanöfn eru aðeins brotabrot af orðaforða íslenskunnar?

Jafnvel þó að nefndarmeðlimir bendi á að hlutverk þeirra sé einfaldlega að fara að lögum er það staðreynd að oft er ansi mikið rými fyrir túlkun í þeim efnum.

Það hef ég upplifað á eigin skinni en fyrir 23 árum eignaðist ég dóttur sem skírð var Blær. Nafninu hafði ég kynnst þegar ég las Brekkukotsannál Halldórs Laxness og var staðráðin í að ef ég einhvern tíma eignaðist stúlku fengi hún sama nafn og dóttir orgelkennarans sem Álfgrímur sækir tíma til, en fegurð hennar var slík að hann gleymdi nótnaskalanum.

Dóttir mín var skírð þessu, að mínu mati, fallega og íslenska nafni en nokkrum mánuðum síðar kom presturinn sem skírði hana að máli við okkur foreldrana. Honum höfðu orðið á mistök. Nafnið var nýverið sett á lista eiginnafna drengja en ekki stúlkna og því þyrftum við að skipta um nafn og stakk hann upp á nafninu Blædís.

Ætli það að velja barni sínu nafn sé ekki ein persónulegasta ákvörðun sem hægt er að taka og um leið ein sú ástríkasta? Það velur enginn nafn sem fylgja mun einstaklingi út ævina í hálfkæringi, flestum er sú ákvörðun mikið hjartans mál.

Því vildi ég ekki að Blær yrði Blædís og þrjóskaðist við. Ég reyndi að rökræða við þáverandi formann mannanafnanefndar auk þess að senda formleg erindi. Hann aftur á móti spurði mig hvort ég vildi ekki bara nefna dóttur mína Guðmund.

Þessi saga fékk farsælan endi, þegar Blær vann mál gegn íslenska ríkinu og þurfti ekki lengur að heita Stúlka í þjóðskrá, eins og hún hafði gert í 16 ár.

Þetta er bara ein saga af mörgum en lýsir því hvernig lögin hafa unnið gegn sjálfsögðum vilja fólks. Það bara getur ekki verið til góðs að yfirvöld hafi lokavald yfir öðru eins einkamáli og nöfnum fólks.