Í síðustu för sinni til Þingvalla ætlaði Snorri Sturluson að fá skaðabætur fyrir bróðurson sinn Tuma Sighvatsson. Hann treysti því að Kolbeinn ungi vildi ljúka eftirmálum Örlygsstaðabardaga. Annað var uppi á teningnum. Kolbeinn gerði Snorra mikla háðung og hann fór sneyptur heim í Reykholt.

Ég fór á Þingvöll í fyrri viku með Guðna Ágústssyni vini mínum til að spjalla um Jónas Hallgrímsson. Veðrið var íslenskt og margbreytilegt, sólskin, 7 stiga hiti og hífandi rok. Með í för var Solveig Arnarsdóttir leikkona og Karlakór Kjalnesinga. Guðni fór á kostum, Solveig las af innlifun og kórinn söng Jónasarkvæði fyrir 200 veðurbarða gesti.

Þegar kom að mínum þætti kárnaði gamanið. Veikindi síðustu mánaða tóku öll völd. Ég var lafmóður eftir gönguna niður Almannagjá og átti fullt í fangi með að koma frá mér ræðunni. Röddin brást og mig rak í vörðurnar. Ég neyddist til að stytta mál mitt verulega. Þetta varð því engin frægðarför fremur en hjá Snorra.

Ég hafði greinilega ofmetið eigin heilsu og vanmetið kuldann og rokið. Á þessari stundu rann ég saman við Snorra frænda enda skildi ég vel vonbrigði hans eftir Þingvallaförina. Áleitnar spurningar kviknuðu. Eru endalokin nærri eins og hjá frænda? Hvað þýðir hún þessi mæði?

Nokkrir læknar sýndu samkennd og mikla tillögugleði. Þeir vildu að ég færi í fleiri rannsóknir og prófaði ný lyf. Ég setti hausinn undir mig og tuldraði þessi orð Árna Magnússonar þegar hann gekk út úr brennunni í Kaupmannahöfn 1728. „Ég er þreyttur. Nú mega goðin ráða.“