Arnar Þór Jóns­son héraðs­dómari hefur að eigin sögn ríkan hug á að ná kjöri til Al­þingis og skipar nú 5. sæti á lista Sjálf­stæðis­flokks í Suð­vestur­kjör­dæmi. Í von um að fá kjós­endur til fylgis við sig hefur hann upp á síð­kastið skrifað blaða­greinar án af­láts handa „Norður-Kóreu­mönnum“ í Sjálf­stæðis­flokki og fleiri stjórn­mála­hreyfingum.
Gildur þráður í blaða­greinum héraðs­dómarans er þessi: full­veldi Ís­lands stafar háski af Evrópu­sam­bandinu; öðru máli gegnir um At­lants­hafs­banda­lagið, því „NATO eru ekki sam­tök með yfir­þjóð­legu valdi eins og ESB“, segir hann í Frétta­blaðinu 21. júlí síðast­liðinn og endur­tekur þau orð í Morgun­blaðs­grein 27. sama mánaðar. Manni skilst að „yfir­þjóð­legt vald“ Evrópu­sam­bandsins jafn­gildi einna helzt róm­versku keisara­valdi í nú­tíðar­búningi.

Ég var svo barna­legur að í­mynda mér að lög­fræðingar vissu manna bezt að í ESB er ekki til „yfir­þjóð­legt vald“. Hvar væri þess að leita? „Í fram­kvæmda­stjórninni í Brussel,“ myndi ein­hver segja. Ónei, fram­kvæmda­stjórnin fer einungis með um­boðs­vald sem full­valda ríki hafa fengið henni í hendur sam­kvæmt sátt­mála sín í milli. Ríki Evrópu­sam­bandsins hafa ekki af­salað sér neinu af full­veldi sínu til fram­kvæmda­stjórnarinnar, heldur fram­selt á­kveðna þætti þess af fúsum og frjálsum vilja í þágu sam­eigin­legra hags­muna og geta aftur­kallað fram­salið hve­nær sem er með út­göngu úr sam­bandinu.
Brexit-fá­fræðingar töngluðust og tönglast enn á því hve Evrópu­sam­bandið sé ó­lýð­ræðis­legt, þar sé enginn maður kjörinn lýð­ræðis­lega til nokkurs hlutar. Þeir hafa ekki minnstu hug­mynd um lög­gjafar­þing hvers ESB-lands um sig og halda að fram­kvæmda­stjórnin í Brussel sé ríkis­stjórn! En fram­kvæmda­stjórnin er ekki ríkis­stjórn, enda er ESB ekki ríki. Í til­teknum úr­skurði þýzka stjórn­laga­dóm­stólsins sökum mála­þrætu segir: ESB er ríkja­sam­band („Staaten­bund“), ekki sam­bands­ríki („Bundes­sta­at“, eins og t.d. Þýzka­land).

Ég var svo barna­legur að í­mynda mér að lög­fræðingar vissu manna bezt að í ESB er ekki til „yfir­þjóð­legt vald“

Fram­kvæmda­stjórn ESB er ná­kvæm­lega það sem felst í al­þjóð­legu heiti hennar: commission, þ.e. um­boðs­stjórn. Ekki er til þess vitað að um­boðs­stjórnir séu kjörnar beint í lýð­ræðis­legum kosningum. Og hví skyldi slíkt eiga við um fram­kvæmda­stjórn ESB? Hver þjóð innan sam­bandsins kýs til lög­gjafar­þings í sínu landi á lýð­ræðis­legan hátt og með pólitískt úr­skurðar­vald í sam­bandinu fer ráð­herra­ráð, skipað æðstu odd­vitum aðildar­ríkjanna sam­kvæmt niður­stöðu þeirra kosninga hverju sinni; og sér­hver þeirra hefur neitunar­vald.

Lýð­veldið Frakk­land er í Evrópu­sam­bandinu eins og menn vita. Fáar þjóðir hafa styrkt betur en Frakkar hina lýð­ræðis­legu stjórn­skipan í heiminum. Þeir hrundu af höndum sér konungs­valdinu í blóðugri byltingu og hófu á loft gunn­fána frelsis, jafn­réttis og bræðra­lags, sigur­tákn nýrra tíma, oft lítils­virt síðar, því miður. Ætla mætti að sú þjóð sem ruddi lýð­ræði braut kysi ekki að búa við „yfir­þjóð­legt vald“ Evrópu­sam­bandsins. En viti menn, hún er hvergi smeyk við það, sbr. grein 88.1 í frönsku stjórnar­skránni, enda heimsku­legt að óttast vald sem er tómur hugar­burður.
Sé aftur á móti svo komið að EES-sam­starfið brjóti í bága við stjórnar­skrá Ís­lands að ó­breyttu, mætti svo að orði kveða að Ís­land lyti „yfir­þjóð­legu valdi“ að því leyti sem til EES-samningsins tekur. Á­stæðan lægi þá í eðli samningsins, ekki í hinu: að innan Evrópu­sam­bandsins sjálfs sé við lýði „yfir­þjóð­legt vald“.

Út úr þessari klemmu lægju tvær leiðir: að Ís­lendingar segðu EES-samningnum upp eða gengju til fulls í ESB. Hið „yfir­þjóð­lega vald“, sprottið af EES-samningnum, yrði að engu, hvor leiðin sem farin væri.
Vonandi krefst Arnar Þór Jóns­son þjóðar­at­kvæða­greiðslu um þetta mikil­væga á­lita­efni, því hann kveðst í áður­nefndri Morgun­blaðs­grein „standa vörð um rétt okkar til að fá að hugsa“.

Höfundur er rithöfundur.