Við komum öll inn í þennan heim með kostum og göllum. Ég þyki til dæmis frekar hávær og þegar amma var farin að missa heyrn var ég eina barnabarnið sem hún heyrði vel í – og ég kæmi skilaboðum ágætlega til skila án gjallarhorns eða hljóðnema. Í gegnum tíðina hefur fjölskyldan sent mig reglulega í heyrnarmælingu enda hljóti eitthvað að vera að, en einatt hafa mælingar sýnt fullkomna heyrn. Mér liggur einfaldlega hátt rómur en tel mig hvorki tala sérstaklega mikið né vera óeðlilega háværa.

Svo gerðist það í haust að hálsóþægindi fóru að gera vart við sig. Á COVID-tímum er það ákveðið áhyggjuefni en þegar ljóst var að þetta var veirunni ótengt var fjölskyldunni létt. Óþægindin reyndust þrálát þannig að á endanum var leitað til læknis, sem eftir stutta skoðun sá hvað hrjáði konuna. Frúin reyndist vera með vöðvabólgu í tungurót! Aldrei fyrr hafa fréttir af heilsu minni vakið eins mikla kátínu hjá vinum og fjölskyldu, og í stað samúðar sat sjúklingurinn undir háðsglósum og hlátrasköllum. Í hönd fór sprautumeðferð sem fljótt dró úr óþægindum í hálsi og frúin hresstist öll.

Undanfarnar vikur hafa flestir haldið sig heima við og samskipti við fólk með nýjum hætti. Vinkonuhópar hittast fyrir framan tölvuskjái og þar er skrafað og hlegið og stundum er gott vínglas haft um hönd. Eitt kvöldið þegar frúin hafði setið óvenjulengi á slíkum fundum hafði eiginmaðurinn á orði að greinilegt væri að meðferðin væri að virka, því sjaldan hefði hans betri helmingur talað jafn mikið og hátt og þetta kvöld.

Þó mátti greina af raddblænum að skjótur og góður bati eiginkonunnar var honum ekkert sérstakt fagnaðarefni.