Þessi spurning er auð­vitað ansi kræf, hér er verið að tala um seðla­banka­stjóra og peninga­stefnu­nefnd, eitt valda­mesta stjórn­vald landsins, en, ef svarið skyldi vera „já“, þá er spurningin ekki að­eins rétt­mæt, heldur brýn.

Fast­eigna­markaðurinn saman­stendur af þeim hús­byggj­endum og hús- eða í­búðar­eig­endum, sem eru að bjóða og selja fast­eignir, í­búðir sínar, svo og þeim, sem eru að kaupa og fjár­festa í hús­næði, nú, á líðandi stundu.

Á þessum markaði er til­tölu­lega lítill hópur, lítill hluti lands­manna, en stærð hans má marka af því, að þörf er talin á 3–4.000 nýjum í­búðum á ári. Um 10–12.000 af­sölum vegna fast­eigna­kaupa mun vera gengið frá á ári.

Þeir sem seldu eða keyptu fast­eignir í gær, í síðasta mánuði, í fyrra eða áður, eru auð­vitað ekki lengur á fast­eigna­markaði, þeir eru komnir af honum.

Þessi hópur, sem er stór, mikill hluti lands­manna, hefur ekkert lengur með fast­eigna­markaðinn að gera.

Bara sá hópur sem var á fast­eigna­markaði, en er kominn af honum og skuldar hús­næðis­lán með breyti­legum vöxtum, mun vera um 50.000 lán­tak­endur, 120–150.000 manns. Veru­legur hluti lands­manna.

Þegar stýri­vextir eru hækkaðir, hækka vextir til hús­næðis­kaupa líka, þannig að kaup­endur sem þurfa lán til kaupanna verða að greiða hærri vexti af lánum. Þetta dregur úr kaup­getu og kaup­vilja, minnkar eftir­spurn þess til­tölu­lega litla hóps sem er á hús­næðis­markaði.

Stýri­vaxta­hækkun bitnar hins vegar líka á öllum þeim, marg­falt stærri hópi, sem kominn er af hús­næðis­markaði, en skuldar enn hús­næðis­lán með breyti­legum eða verð­tryggðum vöxtum.

Sá hópur sem skuldar meðal­stórt hús­næðis­lán, 35 milljónir, en þetta eru um 50 þúsund fjöl­skyldur, eins og fram kom, allar löngu komnar af hús­næðis­markaði, þurfa nú að borga 80.000 krónur meira á mánuði, milljón á ári, en þær þurftu, áður en Seðla­banki byrjaði að hækka stýri­vexti.

Fyrir mér er það glóru­laust, nánast geð­veiki, að Seðla­banki geri ráð­stafanir til að hindra lítinn hóp í fast­eigna­kaupum á kostnað þess, að lífs­kjör og af­koma marg­falt stærri hóps séu al­var­lega löskuð, stór­skert.

Í við­tali við Inn­herja/Vísi 4. maí sl. sagði seðla­banka­stjóri: „ Við erum að reyna með þessu (þessum stýri­vaxta­hækkunum) að vinna í haginn fyrir komandi kjara­samninga.“

Heldur maðurinn virki­lega að hann sé að búa í haginn fyrir komandi kjara­samninga með því að skerða kjör 50.000 fjöl­skyldna um 80 þúsund krónur á mánuði?!

Allt þetta fólk, um þriðjungur þjóðarinnar, þarf nú 100–120 þúsund króna hærri laun á mánuði –skattar dragast frá – bara til að greiða hækkaða vexti af hús­næðis­lánum sínum!

Þetta er ekki að búa í haginn, heldur að stór­spilla fyrir komandi kjara­samningum!

Í sama við­tali sagði seðla­banka­stjóri þetta: „Við höfum tækin sem þarf til að ná niður verð­bólgunni og við getum beitt þeim af fullum þunga. Ef við þurfum að gera það í and­stöðu við aðila vinnu­markaðarins … þá þýðir það einungis að Seðla­banki þarf að keyra hag­kerfið niður í kreppu.“

„Keyra hag­kerfið niður í kreppu“?! Í sann­leika sagt hvarflaði að mér hvort maður væri með öllum mjalla þegar ég las þetta.

Ný­lega birti Hag­stofan vísi­tölu fast­eigna­verðs fyrir maí. Hækkun vísi­tölunnar er 3%, sem er að­eins 0,1% lægra en í apríl. Hækkun Seðla­banka á stýri­vöxtum janúar–maí, úr 2% í 3,75%, hefur því ekki virkað nokkurn skapan hlut.

Í Evru­landi, meðal 26 Evrópu-þjóða, eru stýri­vextir enn 0,0%. Í Noregi eru þeir 0,75%, í Sví­þjóð 0,25%, í Dan­mörku -0,45%, í Sviss -0,25%, í Bret­landi 1,25%, í BNA 1,75% og í Japan -0,1%.

Í stórum er­lendum þjóð­fé­lögum er al­hliða at­vinnu­starf­semi og þjónusta í gangi, þessar þjóðir eru miklu minna háðar inn­flutningi en við, eru mikið sjálfum sér nægar, og grípa því hóf­legar stýri­vaxta­hækkanir inn í hina marg­vís­legu þætti stóru sam­fé­laganna með allt öðrum og virkari hætti en hér.

Við verðum nefni­lega að flytja mikinn hluta okkar neyzlu­vöru inn, erum feiki­lega háð inn­flutningi, en stýri­vaxta­hækkanir lækka ekki verð­lag á inn­flutningi, heldur hækka það.

Er­lendis breytast vextir veittra lána, skuldir manna og greiðslu­byrði, ekki við stýri­vaxta­hækkanir. Seðla­bankar þurfa því ekki að hafa það veiga­mikla vel­ferðar­at­riði stórs hluta sam­fé­lagsins í huga.

Auð­vitað ætti að banna lán með breyti­legum eða verð­tryggðum vöxtum líka hér.

Hver og einn verður nú að dæma, hvar stjórn Seðla­banka á bezt heima. Jafn rauna­legt og það er, hallast undir­ritaður að Sundunum.

Höfundur er sam­fé­lags­rýnir og dýra­verndar­sinni.