Þessi spurning er auðvitað ansi kræf, hér er verið að tala um seðlabankastjóra og peningastefnunefnd, eitt valdamesta stjórnvald landsins, en, ef svarið skyldi vera „já“, þá er spurningin ekki aðeins réttmæt, heldur brýn.
Fasteignamarkaðurinn samanstendur af þeim húsbyggjendum og hús- eða íbúðareigendum, sem eru að bjóða og selja fasteignir, íbúðir sínar, svo og þeim, sem eru að kaupa og fjárfesta í húsnæði, nú, á líðandi stundu.
Á þessum markaði er tiltölulega lítill hópur, lítill hluti landsmanna, en stærð hans má marka af því, að þörf er talin á 3–4.000 nýjum íbúðum á ári. Um 10–12.000 afsölum vegna fasteignakaupa mun vera gengið frá á ári.
Þeir sem seldu eða keyptu fasteignir í gær, í síðasta mánuði, í fyrra eða áður, eru auðvitað ekki lengur á fasteignamarkaði, þeir eru komnir af honum.
Þessi hópur, sem er stór, mikill hluti landsmanna, hefur ekkert lengur með fasteignamarkaðinn að gera.
Bara sá hópur sem var á fasteignamarkaði, en er kominn af honum og skuldar húsnæðislán með breytilegum vöxtum, mun vera um 50.000 lántakendur, 120–150.000 manns. Verulegur hluti landsmanna.
Þegar stýrivextir eru hækkaðir, hækka vextir til húsnæðiskaupa líka, þannig að kaupendur sem þurfa lán til kaupanna verða að greiða hærri vexti af lánum. Þetta dregur úr kaupgetu og kaupvilja, minnkar eftirspurn þess tiltölulega litla hóps sem er á húsnæðismarkaði.
Stýrivaxtahækkun bitnar hins vegar líka á öllum þeim, margfalt stærri hópi, sem kominn er af húsnæðismarkaði, en skuldar enn húsnæðislán með breytilegum eða verðtryggðum vöxtum.
Sá hópur sem skuldar meðalstórt húsnæðislán, 35 milljónir, en þetta eru um 50 þúsund fjölskyldur, eins og fram kom, allar löngu komnar af húsnæðismarkaði, þurfa nú að borga 80.000 krónur meira á mánuði, milljón á ári, en þær þurftu, áður en Seðlabanki byrjaði að hækka stýrivexti.
Fyrir mér er það glórulaust, nánast geðveiki, að Seðlabanki geri ráðstafanir til að hindra lítinn hóp í fasteignakaupum á kostnað þess, að lífskjör og afkoma margfalt stærri hóps séu alvarlega löskuð, stórskert.
Í viðtali við Innherja/Vísi 4. maí sl. sagði seðlabankastjóri: „ Við erum að reyna með þessu (þessum stýrivaxtahækkunum) að vinna í haginn fyrir komandi kjarasamninga.“
Heldur maðurinn virkilega að hann sé að búa í haginn fyrir komandi kjarasamninga með því að skerða kjör 50.000 fjölskyldna um 80 þúsund krónur á mánuði?!
Allt þetta fólk, um þriðjungur þjóðarinnar, þarf nú 100–120 þúsund króna hærri laun á mánuði –skattar dragast frá – bara til að greiða hækkaða vexti af húsnæðislánum sínum!
Þetta er ekki að búa í haginn, heldur að stórspilla fyrir komandi kjarasamningum!
Í sama viðtali sagði seðlabankastjóri þetta: „Við höfum tækin sem þarf til að ná niður verðbólgunni og við getum beitt þeim af fullum þunga. Ef við þurfum að gera það í andstöðu við aðila vinnumarkaðarins … þá þýðir það einungis að Seðlabanki þarf að keyra hagkerfið niður í kreppu.“
„Keyra hagkerfið niður í kreppu“?! Í sannleika sagt hvarflaði að mér hvort maður væri með öllum mjalla þegar ég las þetta.
Nýlega birti Hagstofan vísitölu fasteignaverðs fyrir maí. Hækkun vísitölunnar er 3%, sem er aðeins 0,1% lægra en í apríl. Hækkun Seðlabanka á stýrivöxtum janúar–maí, úr 2% í 3,75%, hefur því ekki virkað nokkurn skapan hlut.
Í Evrulandi, meðal 26 Evrópu-þjóða, eru stýrivextir enn 0,0%. Í Noregi eru þeir 0,75%, í Svíþjóð 0,25%, í Danmörku -0,45%, í Sviss -0,25%, í Bretlandi 1,25%, í BNA 1,75% og í Japan -0,1%.
Í stórum erlendum þjóðfélögum er alhliða atvinnustarfsemi og þjónusta í gangi, þessar þjóðir eru miklu minna háðar innflutningi en við, eru mikið sjálfum sér nægar, og grípa því hóflegar stýrivaxtahækkanir inn í hina margvíslegu þætti stóru samfélaganna með allt öðrum og virkari hætti en hér.
Við verðum nefnilega að flytja mikinn hluta okkar neyzluvöru inn, erum feikilega háð innflutningi, en stýrivaxtahækkanir lækka ekki verðlag á innflutningi, heldur hækka það.
Erlendis breytast vextir veittra lána, skuldir manna og greiðslubyrði, ekki við stýrivaxtahækkanir. Seðlabankar þurfa því ekki að hafa það veigamikla velferðaratriði stórs hluta samfélagsins í huga.
Auðvitað ætti að banna lán með breytilegum eða verðtryggðum vöxtum líka hér.
Hver og einn verður nú að dæma, hvar stjórn Seðlabanka á bezt heima. Jafn raunalegt og það er, hallast undirritaður að Sundunum.
Höfundur er samfélagsrýnir og dýraverndarsinni.