Atvinnurekendum er gert að standa skil á ýmsum sköttum, svo sem virðisaukaskatti og staðgreiðslu launa. Þessir skattar hafa verið nefndir rimlaskattar og er þá átt við að ef atvinnurekandi stendur ekki í skilum þá getur tukthús blasað við ásamt himinháum sektargreiðslum.

Það er því innbyggt í alvöru atvinnurekendur að vera með allt sitt á hreinu þegar kemur að hinu opinbera. Og þó að ég hafi verið það lánsöm að reka arðbært fyrirtæki og geta staðið skil á öllu sem standa þarf skil á, skal viðurkennt að hjartað tók smá aukakipp fyrr í vikunni er óvænt skilaboð bárust frá skattinum. Fyrirtækið skuldaði enn virðisaukaskatt vegna rekstrarársins 2019!

Við eftirgrennslan kom í ljós að endurskoðandi fyrirtækisins hafði gert leiðréttingarskýrslu með síðasta ársuppgjöri og þar með var komin skýring á þessari skuld við hið opinbera. Nam leiðréttingin samtals 54 krónum, en vegna dráttar á greiðslu bættust dráttarvextir við upp á 8 krónur þannig að heildarskuld reyndist 62 krónur.

Að sjálfsögðu ber að greiða allt sem greiða ber og voru þessar 62 krónur millifærðar með hraði inn á reikning skattstjóra. Á sama tíma verð ég að hafa þá bjargföstu trú að allt leiðréttingarferlið hjá stofnuninni hafi verið sjálfvirkt þannig að starfsmenn á launum hafi ekki þurft til, til að fara yfir, reikna, staðfesta og senda út rukkun vegna 62 króna skuldar.

Vegna COVID verður ríkissjóður rekinn með gríðarlegum halla á næstu misserum og því skiptir öllu að allir standi skil á sínu. Talið er að tugmilljarðar séu á sveimi í svarta hagkerfinu og því verður að efla skatteftirlit – en setjum í forgang að ná í stóru upphæðirnar!