Einhver sú alfurðulegasta hugmynd sem skotið hefur upp kollinum nýverið er sú að vernda þurfi sérstaklega opinbera starfsmenn fyrir afleiðingum gerða sinna.

Þessarar dellu hefur reyndar orðið vart áður í öðrum birtingarmyndum en blessunarlega ekki komist í burðarliðinn. Nokkuð kemur á óvart að sá sem kveikir umræðuna nú sé seðlabankastjórinn. Orð hans og æði fram til þessa í starfi bankastjóra hafa borið merki skynsemi og yfirvegunar. Í þessu máli kveður við annan tón.

Málið er sprottið úr farvegi máls bankans gegn Samherja þar sem fyrirtækið freistaði þess að láta reyna á ábyrgð þeirra starfsmanna bankans sem hrundu málinu af stað innan hans. Það mál er út af fyrir sig ekki frekar til umræðu hér en síðasta vending í því var að lögreglustjórinn á Vestfjörðum vísaði kæru fyrirtækisins á hendur fimm starfsmönnum bankans frá nýlega.

Það er við þau tímamót sem seðlabankastjórinn kallar eftir skýrari vernd opinberra starfsmanna í lögum og hefur Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tekið varlega undir og sagt það þurfa ítarlega skoðun.

Rétt er að gera grein fyrir því að opinberir starfsmenn njóta nú þegar talsverðrar verndar í lögum, umfram aðra á vinnumarkaði. Til dæmis er í almennum hegningarlögum sérstakt verndarákvæði í kaflanum um brot gegn valdstjórninni sem segir að hver sá sem ræðst með ofbeldi eða hótunum um það á opinberan starfsmann skuli sæta fangelsi allt að sex árum. Fyrir nú utan atvinnuverndina sem þeir njóta.

Yfirleitt er þannig á litið að menn séu ábyrgir gerða sinna nema fyrir liggi sérstakar ástæður sem leiða eiga til annars. Opinberum starfsmönnum er falið mikið vald og það getur reynst borgurunum bæði kostnaðarsamt og þungbært að rétta sinn hlut gagnvart ofríki og ranglæti hins opinbera.

Í marsmánuði árið 2013 var gefin út ákæra á hendur fjórum mönnum í svonefndu Aserta-máli og þeim gefið að sök að hafa brotið gegn reglum um gjaldeyrismál. Héraðsdómur Reykjaness sýknaði mennina af öllum ákæruliðum í desember 2014. Saksóknari áfrýjaði málinu til Hæstaréttar en féll frá áfrýjun og var sýkna í héraði því endanleg niðurstaða máls. Undir rannsókn málsins máttu mennirnir þola kyrrsetningu eigna sinna, húsleitir, aflað var gagna úr símum þeirra og við upphaf rannsóknarinnar var haldinn sérstakur blaðamannafundur á vegum lögreglu með fulltrúum Seðlabankans þar sem aðild þeirra var kynnt. Þeir höfðu þá enn ekki verið yfirheyrðir.

Gefa má sér að lítil stemning sé fyrir því að víðtækari friðhelgiákvæði til handa opinberum starfsmönnum verði leidd í lög, nema ef vera skyldi á meðal þeirra sjálfra.

Við viljum að opinberu valdi sé beitt hóflega af hálfu þeirra sem með það fara.

Það er engin ástæða til að vernda opinbera starfsmenn sérstaklega fyrir afleiðingum gerða sinna.

Nær að það væri á hinn veginn.