Oft var þörf en nú er nauðsyn að minnast ummæla eins besta íshokkíleikmanns allra tíma, Wayne Gretzky: Ég skauta þangað sem pökkurinn er að fara, ekki þangað sem hann er.

Á undanförnum áratugum hefur verið blómlegur hagvöxtur á Íslandi. Við getum samt ekki treyst á að auðlindahagkerfið haldi áfram á sama hraða og verið hefur enda er umsvifum þess takmörk sett. Nýsköpun verður að vera driffjöður hagvaxtar á 21. öldinni. Vandinn er að samkvæmt algengum mælikvörðum stöndum við öðrum vel stæðum ríkjum að baki hvað það varðar. Það gefur ekki góð fyrirheit um að hugvitsdrifinn iðnaður verði mikilvæg stoð í hagkerfinu innan tíðar.

Útgjöld Ísland til rannsókna og þróunar sem hluti af landsframleiðslu voru minni en annarra iðnríkja á árunum 2011 til 2019. Sömu sögu er að segja þegar litið er til fjölda einkaleyfa miðað við höfðatölu sem varpar ljósi á tíðni nýrra uppfinninga, samkvæmt gögnum sem Seðlabankinn tók saman.

Hugvitsdrifinn iðnaður óx einungis um 2,7 prósent á ári að jafnaði á tíu árum, samkvæmt greiningu Viðskiptaráðs, en vonast var til skömmu eftir fjármálahrunið að vöxturinn yrði tíu prósent til að úr yrði myndarlegur atvinnuvegur.

Rétt er að rifja upp að áður en farsóttin skall á skapaði hagkerfið ekki nógu mörg álitleg störf og því flutti ungt menntað fólk af landi brott en ómenntaðir erlendir verkamenn fluttu til landsins. Að leitast við að efla nýsköpun er því ekki eingöngu til þess fallið að auka hagsæld heldur leggur grunn að áhugaverðum störfum.

Að sjálfsögðu á að gera tímabundna hækkun endurgreiðslna vegna rannsókna og þróunar, sem átti aðeins að gilda fyrir árin 2020 og 2021, varanlega, eins og Viðreisn lagði til. En vandinn er meiri. Skattar á Íslandi eru með þeim hæstu á byggðu bóli en það dregur úr nýsköpun. Að sama skapi dregur mikil verðbólga, gengisóstöðugleiki og djarfar launahækkanir úr möguleikum nýsköpunarfyrirtækja til að ná árangri.

Það þarf því að vinda ofan af skattheimtu og íþyngjandi regluverki, binda endi á stórskaðlegt höfrungahlaup og mennta fólk svo það geti keppt alþjóðlega í tækniþróun til að leggja grunn að umfangsmikilli nýsköpun. Ýmsir af vinstri vængnum munu seint sætta sig við fyrstu tvö atriðin. Í því liggur hluti vandans.