Eins og þúsundir annarra gekk ég að eldstöðvunum í Geldingadölum. Til að standa frammi fyrir frumkrafti náttúrunnar og sjá nýtt Ísland myndast. Það var bíll við bíl á Suðurstrandarvegi og maður við mann alla gönguleiðina. Ég hafði ekki áttað mig á að svona margir ættu höfuðljós en það var gott að sjá að almennt var fólk vel búið, þó oftar sé talað um hina.

Á örfáum dögum hafa myndast um hundrað metra háir gígar, þaðan sem kvika rennur eins og Elliðaár. Náttúra er horfin undir hraun og ný náttúra kemur í hennar stað. Það er ótrúlegt sjónarspil að sjá hluta gígbarmanna falla ofan í sjóðheita bergkvikuna, fljóta í hraunfossi í augnablik áður en hann bráðnar og blandast hraunstreyminu aftur. Í samanburði er hver manneskja svo ósköp smá og kraftlítil.

Á leiðinni inn dalinn var rætt um hve gosið væri hljóðlátt. Að þessi ógurlegi kraftur, sem spýtir hrauninu áfram, beint úr möttlinum, gæfi frekar frá sér hvísl en öskur. Sem þagnaði í hvert sinn sem dróni flaug yfir. Nokkrum klukkustundum síðar, þegar við gengum sömu leið til baka í heldur meira fámenni heyrðum við loks drunurnar. Þær höfðu drukknað í sameinuðum krafti alls göngufólksins sem þarna hafði áður verið.

Og á leiðinni til baka sáum við fleiri dæmi um sameinaðan kraft okkar. Hópur björgunarsveitarfólks að aðstoða fólk sem hafði misstigið sig eða dottið í hálkunni. Annað göngufólk sem var tilbúið að hjálpa þeim lúnu eða grípa þau sem voru við það að detta. Þó svo að hvert okkar sé lítið í samanburði við frumkraftinn, er sameinað afl okkar á við eldsumbrot.