Það var viðbúið að Harpa Þórsdóttir, safnstjóri Listasafns Íslands, gerði athugasemdir við umsögn mína um sýninguna á verkum Georgs Guðna, sem nú eru uppihangandi á safninu (Fréttablaðið, 18. mars sl.). Vandinn er sá að hún hrekur ekki helstu niðurstöður mínar, nefnilega: a) að stór hluti sýningarinnar séu ófullgerð verk frá síðustu æviárum listamannsins, b) að þeirrar staðreyndar sé hvergi getið í kynningartextum sem fylgja sýningunni, og c) að þessi ófullgerðu verk séu síðan notuð til að búa til „frásögn“ af breytingum á vinnubrögðum listamannsins síðustu árin í átt til „meiri hraða“ og „meiri efniskenndar“. Svo ekki sé minnst á fremur ógeðfellda tilraun til að finna í þessum verkum einhvern „forboða“ hins sviplega fráfalls listamannsins undir Heklurótum. Ófullgerð listaverk geta aldrei verið fullnægjandi vitnisburður um endanlega fyrirætlan listamanns. Það hefur kannski verið sérstaklega rætt um þetta „heildstæða“ lokatímabil á myndlistarferli Georgs Guðna á málþingi safnsins 15. mars, hvað veit ég.
Harpa vísar því einfaldlega á bug að í hennar ranni séu nokkur ófullgerð verk til staðar. Í framhaldinu vill hún beina sjónum að nokkrum aukaatriðum í umsögn minni, svo sem aðdróttunum mínum um „flýtimeðferð“ á sýningunni og vöntun á sýningartengdri rannsóknarvinnu frá safnsins hendi. Ég skal fúslega taka þann slag einhvern tímann seinna, ef Harpa gefur mér tækifæri til þess. Síðan gerir hún mér upp vantraust á sýningarstjórann, Einar Garibalda Einarsson, eins og hann sé sérstakur ábyrgðarmaður sýningarinnar. Einar hengir verkin upp í umboði safnsins, og gerir það með sóma. En safnið ber auðvitað ábyrgðina.
Sæmdarréttur
Við Einar áttum raunar gott samtal um þessa sýningu, eins og Harpa getur um, og vorum, satt best að segja, nokkuð einhuga. Sem sennilega kemur Hörpu á óvart. Ótilneyddur tjáði Einar mér að, eftir á að hyggja, teldi hann að skynsamlegt hefði verið að láta þess getið að einhver verkanna kynnu að vera ófullgerð, og að hann sjálfur slægi þann varnagla þegar hann upplýsti gesti og gangandi um sýninguna. Þessi viðbrögð hans urðu til þess að styrkja mig enn frekar í þeirri trú að á títtnefndri sýningu væri misfarið með verk Georgs Guðna.
Í leiðinni kemur Harpa með svolítið skrýtna yfirlýsingu. „Aðför Aðalsteins að sýningunni …vegur að heiðri látins listamanns, nánustu aðstandenda hans og samvinnu þeirra við Listasafn Íslands.“ Ég vil endilega að það komi fram að á fáum íslenskum myndlistarmönnum hef ég haft eins miklar mætur, og skrifað eins oft og mikið um, og Georg Guðna Hauksson. Hann er til dæmis einn af höfuðpersónum í heimildarmynd um unga myndlistarmenn sem ég gerði fyrir RÚV snemma á níunda áratug síðustu aldar; trúlega er það fyrsta „lifandi“ heimildin um myndlist hans.
Umsögn mín er ekki „aðför“ að listamanninum, þvert á móti er hún tilraun til að taka upp þykkjuna fyrir hann. Í höfundalögum er að finna ákvæði um „sæmdarrétt“ listamanna, lifandi sem látinna, sem felur í sér að ekki er heimilt að setja verk þeirra „í þannig samhengi að það skaði höfundarheiður þeirra“. Enginn myndlistarmaður mundi sætta sig við það að ófullgerð verk hans væru sýnd sem fullgerð í helsta listasafni þjóðarinnar. Og þessi sömu verk væru síðan notuð til að hnýta einhvers konar listfræðilegan endahnút á listferil hans, samanber það sem ég segi hér í upphafi.
Aðkoma fjölskyldunnar
Nú standa málin þannig að sýningarstjórinn og ég erum á þeirri skoðun að hluti málverkanna á þessari sýningu séu ófullgerð, safnstjórinn segir það „fjarri öllu lagi“. Í þessum skrifuðu orðum dettur inn um lúguna hjá mér Fréttablaðið frá 31. mars, þar sem fjölskylda Georgs Guðna skýrir aðkomu sína að sýningunni. Þar staðfestir hún góðfúslega það sem ég hef haldið fram á þessum vettvangi, nefnilega að á henni sé sannarlega að finna ótilgreindan fjölda verka sem eru „á mörkum þess að vera fullgerð“, sömuleiðis að tæplega helmingur verkanna sé merktur listamanninum. Þar með er umræðan sennilega tæmd.
Höfundur er listfræðingur