Það var við­búið að Harpa Þórs­dóttir, safn­stjóri Lista­safns Ís­lands, gerði at­huga­semdir við um­sögn mína um sýninguna á verkum Georgs Guðna, sem nú eru uppi­hangandi á safninu (Frétta­blaðið, 18. mars sl.). Vandinn er sá að hún hrekur ekki helstu niður­stöður mínar, nefni­lega: a) að stór hluti sýningarinnar séu ó­full­gerð verk frá síðustu ævi­árum lista­mannsins, b) að þeirrar stað­reyndar sé hvergi getið í kynningar­textum sem fylgja sýningunni, og c) að þessi ó­full­gerðu verk séu síðan notuð til að búa til „frá­sögn“ af breytingum á vinnu­brögðum lista­mannsins síðustu árin í átt til „meiri hraða“ og „meiri efnis­kenndar“. Svo ekki sé minnst á fremur ó­geð­fellda til­raun til að finna í þessum verkum ein­hvern „for­boða“ hins svip­lega frá­falls lista­mannsins undir Heklu­rótum. Ó­full­gerð lista­verk geta aldrei verið full­nægjandi vitnis­burður um endan­lega fyrir­ætlan lista­manns. Það hefur kannski verið sér­stak­lega rætt um þetta „heild­stæða“ loka­tíma­bil á mynd­listar­ferli Georgs Guðna á mál­þingi safnsins 15. mars, hvað veit ég.

Harpa vísar því ein­fald­lega á bug að í hennar ranni séu nokkur ó­full­gerð verk til staðar. Í fram­haldinu vill hún beina sjónum að nokkrum auka­at­riðum í um­sögn minni, svo sem að­dróttunum mínum um „flýti­með­ferð“ á sýningunni og vöntun á sýningar­tengdri rann­sóknar­vinnu frá safnsins hendi. Ég skal fús­lega taka þann slag ein­hvern tímann seinna, ef Harpa gefur mér tæki­færi til þess. Síðan gerir hún mér upp van­traust á sýningar­stjórann, Einar Gari­balda Einars­son, eins og hann sé sér­stakur á­byrgðar­maður sýningarinnar. Einar hengir verkin upp í um­boði safnsins, og gerir það með sóma. En safnið ber auð­vitað á­byrgðina.

Sæmdar­réttur

Við Einar áttum raunar gott sam­tal um þessa sýningu, eins og Harpa getur um, og vorum, satt best að segja, nokkuð ein­huga. Sem senni­lega kemur Hörpu á ó­vart. Ó­til­neyddur tjáði Einar mér að, eftir á að hyggja, teldi hann að skyn­sam­legt hefði verið að láta þess getið að ein­hver verkanna kynnu að vera ó­full­gerð, og að hann sjálfur slægi þann var­nagla þegar hann upp­lýsti gesti og gangandi um sýninguna. Þessi við­brögð hans urðu til þess að styrkja mig enn frekar í þeirri trú að á títt­nefndri sýningu væri mis­farið með verk Georgs Guðna.

Í leiðinni kemur Harpa með svo­lítið skrýtna yfir­lýsingu. „Að­för Aðal­steins að sýningunni …vegur að heiðri látins lista­manns, nánustu að­stand­enda hans og sam­vinnu þeirra við Lista­safn Ís­lands.“ Ég vil endi­lega að það komi fram að á fáum ís­lenskum mynd­listar­mönnum hef ég haft eins miklar mætur, og skrifað eins oft og mikið um, og Georg Guðna Hauks­son. Hann er til dæmis einn af höfuð­per­sónum í heimildar­mynd um unga mynd­listar­menn sem ég gerði fyrir RÚV snemma á níunda ára­tug síðustu aldar; trú­lega er það fyrsta „lifandi“ heimildin um mynd­list hans.

Um­sögn mín er ekki „að­för“ að lista­manninum, þvert á móti er hún til­raun til að taka upp þykkjuna fyrir hann. Í höfunda­lögum er að finna á­kvæði um „sæmdar­rétt“ lista­manna, lifandi sem látinna, sem felur í sér að ekki er heimilt að setja verk þeirra „í þannig sam­hengi að það skaði höfundar­heiður þeirra“. Enginn mynd­listar­maður mundi sætta sig við það að ó­full­gerð verk hans væru sýnd sem full­gerð í helsta lista­safni þjóðarinnar. Og þessi sömu verk væru síðan notuð til að hnýta ein­hvers konar list­fræði­legan enda­hnút á list­feril hans, saman­ber það sem ég segi hér í upp­hafi.

Að­koma fjöl­skyldunnar

Nú standa málin þannig að sýningar­stjórinn og ég erum á þeirri skoðun að hluti mál­verkanna á þessari sýningu séu ó­full­gerð, safn­stjórinn segir það „fjarri öllu lagi“. Í þessum skrifuðu orðum dettur inn um lúguna hjá mér Frétta­blaðið frá 31. mars, þar sem fjöl­skylda Georgs Guðna skýrir að­komu sína að sýningunni. Þar stað­festir hún góð­fús­lega það sem ég hef haldið fram á þessum vett­vangi, nefni­lega að á henni sé sannar­lega að finna ó­til­greindan fjölda verka sem eru „á mörkum þess að vera full­gerð“, sömu­leiðis að tæp­lega helmingur verkanna sé merktur lista­manninum. Þar með er um­ræðan senni­lega tæmd.

Höfundur er listfræðingur