Frelsið er yndislegt. Ég geri það sem ég vil.“ Nema, það er auðvitað ekki það sem frelsi er. Það hefði bara verið svolítið kauðslegt hjá Nýdönskum að syngja „Ég geri það sem ég vil, innan þeirra marka sem skráðar og óskráðar reglur leyfa og þess ramma sem takmarkar hugarflug mitt um hið mögulega.“

Langflest sættum við okkur við að frelsið er ekki ótakmarkað. Sérstaklega undanfarið ár þegar við höfum sætt okkur við miklar takmarkanir í von um heilbrigðari þjóð og flatari kúrfu. Við erum langflest gott fólk sem viljum öðrum – og samfélaginu – vel. Því skiljum við af hverju við komumst ekki í sund þó það sé hundfúlt.

Þessar skerðingar á frelsinu hafa samt reynt á seiglu okkar. Seiglu til að hafa þolinmæði fyrir ástandinu sem er augljóslega takmörkuð auðlind, bæði hjá almenningi og okkar besta þríeyki. Og seiglu til að halda í grundvallargildi í stað þess að láta stjórnast af ótta.

Óttinn hefur áhrif á líf okkar. Við setjum okkur reglur til að lifa öruggara lífi. En sagan er líka uppfull af dæmum þar sem óttinn er kröftugt vopn til að fá hættulegar reglur og atburði samþykkta. Ef við gætum okkar ekki getur óttinn auðveldlega orðið skynseminni og mannúðinni yfirsterkari.

Á meðan forsetinn talaði um vonina fékk óttinn stóran hluta þjóðarinnar til að finnast það ekki tiltökumál að skerða frelsi fólks án laga, því tilgangurinn helgaði meðalið. Sami ótti rak svo fjölmarga netverja til að skamma konu fyrir að vilja vera viðstödd útför móður sinnar. Það er verulega farið að reyna á seiglu okkar.