Hjónin Skallagrímur og Bera að Borg í Borgarfirði fylgdu svokallaðri afreksstefnu við uppeldið á Agli afa mínum Skallagrímssyni. Egill fór snemma að láta að sér kveða í manndrápum og öðrum íþróttum. Einhverju sinni þegar hann hafði drepið ungan og efnilegan jafnaldra sinn hrósaði Bera honum og sagði hann víkingsefni. Þetta varð Agli mikil hvatning enda varð hann ein öflugasta íþróttahetja í Íslandssögunni. Í Spörtu hinni fornu sögðu mæður við syni sína: Ef sverð þitt er stutt gakktu þá feti framar. Þetta er „valdeflandi uppeldisaðferð“ eins og beitt var að Borg.

Mér datt þetta í hug á dögunum á handboltaleik hjá dótturdóttur minni úti í Svíþjóð. Ég spurði hver staðan væri í leiknum. Mér var svarað að mörkin væru ekki talin þar sem öll keppni væri skaðleg. Börnin hlupu um völlinn í félagsbúningum í fullkomnu tilgangsleysi og skoruðu mörk sem skiptu engu máli. Áhorfendum og börnum leiddist mikið þótt uppeldisfræðingar segðu þetta mun uppbyggilegra en venjulegur kappleikur. Markmið alls þessa var að forða börnunum frá kvíðaröskun í framtíðinni.

Nú er hart deilt á aðferðir ákveðins körfuboltaþjálfara. Hann vill árangurstengja þjálfunina og hefur hlotið mikið ámæli frá fræðasamfélaginu. Bæði foreldrar og liðsmenn hans segja reyndar að það sé skemmtilegt að keppa að einhverju. Börnin séu mun betur búin undir samkeppnissamfélag fullorðinsáranna og þurfi því síður á geðlyfjum að halda.

Snorri Sturluson vitjaði mín í draumi á dögunum og sagði: Hefðu læknar og uppeldisfræðingar breytt uppeldi Egils að Borg og gefið honum ritalín og kvætapin við mótþróaþrjóskuröskun og ofvirkni hefði ég aldrei þurft að skrifa Egilssögu. Hún hefði ekki orðið til.